Fótbolti

Er svo líkur Messi að lögreglan þurfti að hjálpa honum í burtu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reza Parastesh er mjög líkur Lionel Messi eins og sést á þessum myndum.
Reza Parastesh er mjög líkur Lionel Messi eins og sést á þessum myndum. Vísir/AFP
Íranskur námsmáður er búinn að slá í gegn á heimaslóðunum og hefur í framhaldinu fengið frétt um sig í mörgum af stærstu fjölmiðlum veraldarvefsins.

Reza Parastesh var tekin niður á lögreglustöð um helgina og glæpur hans var að vera alltof líkur Lionel Messi, leikmanni Barcelona og argentínska landsliðsins. Það var reyndar ekki alveg svo en The Telegraph sagði meðal annars frá afdrifum þessa 25 ára námsmanns frá borginni Hamadan í Íran.

Vera hans í miðbæ Hamadan orsakaði mikla umferðateppu því allir vildu fá að sér mynd af kappanum sem er nauðalíkur eins allra besta knattspyrnumanns sögunnar. Lögreglan varð að bregðast við með að fjarlægja Parastesh af svæðinu til að geta tryggt öryggi hans.

Það er nú ekki beint algjör tilviljun að Reza Parastesh sé svona líkur Lionel Messi. Faðir hans á mikinn þátt í því að auka frægð hans í heimalandinu því hann sendi á sínum tíma myndir af syninum til íranskra fjölmiðla sem vöktu mikla athygli í Íran.

Síðan að myndirnar af Reza Parastesh birtust hefur hann verið gríðarlega eftirsóttur og fólk keppist við það að biðja um að fá að taka mynd af sér með honum.

Parastesh gerir líka í því að líkjast Messi eins mikið og hann getur enda sést það á því að hann safnar alskeggi eins og Argentínumaðurinn og gengur auk þess um í Barcelona-búningi eins og sjá má í myndbandi frá Sports Illustrated hér fyrir neðan.

„Fólk sér mig í dag eins og íranskan Messi og vill að ég hermi eftir öllu sem hann gerir. Þegar ég mæti á svæðið þá er fólk oftast í áfalli yfir því hvað við erum líkir,“ sagði Reza Parastesh við AFP fréttastofuna.

„Það gleður mig mikið að ég geti með þessu glatt aðra. Öll þessi hamingja gefur mér fullt af orku,“ sagði Reza Parastesh.

Reza Parastesh með aðdáendum.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×