Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni á Bessastöðum í dag. Eins og kunnugt er hefur stjórnarsamstarfi verið slitið og féllst Guðni á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í morgun. Hefur Guðni mælt sér mót við leiðtoga allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi á Bessastöðum í dag.
Birgitta fullyrti í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að fundurinn með Guðna hafi gengið vel. Hún viðraði þó áhyggjur sínar af því ástandi sem ríkt hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarin misseri. Hún sagðist sjá fram á áframhaldandi stjórnmálakreppu sem kæmi illa við ýmsa hópa í samfélaginu.
Líkt og Vísir greindi frá í morgun hefur Birgitta ákveðið að gefa ekki kost á sér í næstu alþingiskosningum. Hún ætlar þó ekki að hætta að láta að sér kveða. „Ég er ekki að hætta í stjórnmálum, ég er að hætta á Alþingi. Ég hlakka til að vera áfram aktívisti og halda áfram að berjast fyrir ákveðnum málefnum í þessu samfélagi,“ sagði hún.
Birgitta sagðist hafa skorað á Helga Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmann Pírata, að gefa kost á sér í kosningunum í haust og hefur hann tekið þeirri áskorun.
