Innlent

Stoltur af íbúum Sólheima og mætir gagnrýni

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, fagnar opinni umræðu um aðstæður fatlaðs fólks
Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, fagnar opinni umræðu um aðstæður fatlaðs fólks Visir/Vilhelm
„Mér finnst mikilvægt að styðja við íbúa, bæði þá sem búa hér eða hafa gert það. Þá sem vilja tjá sig um réttindi sín og hag,“ segir Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, um gagnrýni á aðbúnað fatlaðra íbúa.

Tveir fyrrverandi íbúar á Sólheimum gagnrýndu bág launakjör, óljóst fyrirkomulag í innheimtu kostnaðar og skort á sjálfræði í viðtölum við Fréttablaðið og Átak, félag fólks með þroskahömlun. Í viðtölunum kom fram að þótt þeim hefði liðið vel um tíma á Sólheimum hefði aðbúnaði hrakað eftir hrun. Þá væru samgöngur frá Sólheimum bágar og bæði erfitt og flókið væri að flytja sig frá staðnum í annað úrræði.

Guðmundur segist taka umræðu og gagnrýni íbúanna fyrrverandi fagnandi. „Það er auðvitað krefjandi, stundum erfitt en það þurfa allir að eiga sína rödd. Það er líka þannig að við verðum öll, sem gætum hagsmuna fatlaðra, að vera gagnrýnin á eigin samtíma. Við erum öll í eðli okkar sjálflæg og hættir til að líta þannig á að í dag búum við í hinum fullkomna heimi. Svo þegar við lítum til baka eftir tíu ár, þá er kannski eitthvað sem við skiljum ekki af hverju við færðum ekki í betra horf, “ segir Guðmundur.

Breyttu rekstrarfyrirkomulagi

Guðmundur segir að frá því að réttindagæslumenn hafi fyrst gert athugasemdir við aðbúnað á Sólheimum hafi verið brugðist við. Hann líti svo á að starfsemin sé í stöðugri þróun. „Við leggjum til dæmis mjög hart að okkur núna við að auka gagnsæi. Styrktarsjóður Sólheima á og rekur nánast allt íbúðar- og þjónustuhúsnæði. Nú er fyrirkomulagið hér eins og víðast hvar erlendis. Sami lögaðili heldur ekki um eignarhald og veitir þjónustuna. Við breyttum einnig rekstri fyrirtækja á Sólheimum árið 2015 þannig að þau eru í sérstakri sjálfseignarstofnun, Sólheimasetri, þannig að þau tengjast ekki á nokkurn hátt fjármunum sem varið er til þjónustu við fólk með fötlun,“ segir, Guðmundur frá.

Vinnuvélar eru víða um svæðið þegar blaðamann ber að garði. Guðmundur útskýrir að framkvæmdirnar séu til þess að bæta hag íbúa. Sambýlisformið sé víkjandi og hjá þeim sem ekki búa í sjálfstæðri búsetu muni færri íbúar búa í hverju húsi og rýmra verði um hvern og einn.

Réttindagæslumenn höfðu áður gagnrýnt að sumt húsnæði á Sólheimum væri óhentugt. Sex íbúar byggju í einu húsinu þar sem hver um sig hefði lítið herbergi og eitt salerni væri fyrir alla. Í öðru húsnæði væru tíu einstaklingar á meðan reglugerð segði til um að þar mættu aðeins sex búa.

„Eftir breytingu munu þrír til fjórir búa í húsinu og rúmt um hvern og einn. Þrjú salerni og eldhúsaðstaða fyrir hvern og einn,“ bendir hann á.

„Í Bláskógum búa heldri borgarar, um er að ræða tvö hús. Það er mjög krefjandi fyrir okkur að takast á við búsetu íbúa sem eldast hér. Sumir þeirra hafa búið hér alla sína ævi og vilja ekki fara. Við segjum engum að fara. Þess utan þá er ekki víst að önnur hjúkrunarheimili geti tekið við þeim,“ segir Guðmundur.

Breyttu innheimtu kostnaðar

Eitt af því sem fyrrverandi íbúar Sólheima deildu á var að á uppgjörsseðlum kemur fram að innheimt sé fyrir tiltekin atriði en það er ekki sundurliðað. Þannig sé óljóst fyrir hvað er innheimt?

 „Nú er þetta sundurliðað og allur kostnaður sýnilegur. Við höfum bætt bókhaldsskerfi Sólheima og erum enn að vinna að bótum,“ segir Guðmundur. „Við viljum hafa þetta í lagi,“ segir hann og viðurkennir að það hefði mátt færa skipulag greiðslna íbúa í betra horf fyrr. „Ég hef áður heyrt þessa gagnrýni og þess vegna ákváðum við að breyta þessu. Hér greiða íbúar fyrir húsaleigu, hita og rafmagn, innkaup í búð Sólheima og mötuneyti. Nú er þetta allt gagnsætt, hver innkaup og greiðsla í mötuneytinu er gjaldfærð. Áður vorum við með sérstakt mánaðargjald með afslætti. Það gerðum við af því að flestir nýta sér mötuneytið,“ útskýrir Guðmundur betur.

Ekki lengur vaktaðir með myndavélum

En hvað með þá ásökun að íbúar væru vaktaðir með myndavélum án leyfis?

 „Við vorum með myndavélar í rými hjá öldruðum íbúum til að gæta að þjónustu til þeirra. Við tókum myndavélarnar umsvifalaust niður eftir ábendingu og við erum mjög meðvituð um að vöktun þarfnast leyfis,“ segir hann frá.

Pósturinn ekki opnaður

Í athugasemdum réttindagæslumanns um réttindi íbúa kom fram að persónulegur póstur til íbúa væri opnaður?

„Nei, það hefur ekki gerst án þess að eigandi bréfanna sé viðstaddur. Þetta er bara ekki rétt. Póstur varðandi fjármál nokkurra íbúa hefur verið opnaður og settur í möppur sem tilheyra hverjum og einum. Við fengum þá ábendingu að þessar möppur ættu að vera staðsettar á heimilum viðkomandi. Þetta hefur verið lagfært,“ segir Guðmundur og segir staðhæfingu um að póstur sé opnaður á skrifstofu sinni alranga.

Vasapeningar í stað launa

Réttindagæslumenn telja fötluðum greidd alltof lág vinnulaun. Launin sem fyrrverandi íbúar Sólheima greindu frá voru allt frá 5 til 30 þúsund krónum á mánuði. Eftir hvaða reglum er farið?

„Við greiðum vasapeninga og það er svona metið eftir því hvert vinnuframlagið er hvað upphæðin er há,“ segir Guðmundur. „Þetta er svona á fjölda verndaðra vinnustaða á Íslandi,“ bendir hann á og segir líklega betra að fara að kalla greiðsluna réttu nafni, vasapeninga.“

Hvers vegna fá myndlistarmenn ekki greitt fyrir verk sín, andvirði rennur sumsé til staðarins er það ekki?

Já, tekjur af vinnustofum hér á Sólheimum og seld verk renna beint til vinnustofanna. Tekjurnar eru notaðar til að endurnýja tækjakostinn og aðbúnað þar.“

Íbúar einangraðir

Báðir viðmælendur sögðust hafa einangrast á Sólheimum eftir að dregið var verulega úr akstursþjónustu fyrir íbúa. Eru íbúar á Sólheimum ekki frjálsir ferða sinna? Eiga þeir bágt með að komast til og frá Sólheimum?



„Já, það er langur vegur frá því að hér séu íbúar frjálsir ferða sinna,“ segir Guðmundur. „Samgöngumál eru í miklum ólestri. Það eru engar reglulegar samgöngur frá Sólheimum til Selfoss til að mynda. Nokkuð sem sveitarfélagið ætti að standa að,“ bendir hann á. Sveitarfélagið sér um akstursþjónustu íbúa og hún er alltof lítil. Úr þessu þarf að bæta,“ segir hann.



„Sólheimar eiga samkvæmt lögum ekki að keyra nokkurn mann hvorki innan né utan byggðar. Það eru t.d. tæplegar 20 einstaklingar búsettir á Sólheimum sem samkvæmt ákvörðun velferðarþjónustu Árnesþings, eiga ekki rétt á neinni ferðaþjónustu. Nokkrir þessara einstaklinga hafa stefnt sveitarfélaginu og er það mál fyrir Hæstarétti. Svo er fjöldi einstaklinga með mjög takmarkaða ferðaþjónustu,“segir Guðmundur. 

Íbúar segja í beinu framhaldi erfitt að komast í lágvöruverslanir. Þeir verði að kaupa nauðsynjavörur í verslun sem sé rekin af Sólheimum? 



„Það er rétt að aðgengi íbúa að lágvöruverslunum hefur minnkað með minni akstursþjónustu. Við höfum reynt að mæta því. Hér er rekin verslun af sjálfstæðum rekstraraðila og virkilega góð afsláttarkjör. Það er alveg rétt að íbúar komast sjaldnar en áður í verslanir.“



Býr fullorðið fólk í Sólheimum að eigin frumkvæði og ótilneytt (hvorki af foreldrum, fjölskyldumeðlimum eða öðru valdi)? „Hér býr fólk af því það vill það. Einhverjir eru hér vegna þess að þeim býðst ekki annað úrræði en ég get ekki farið nánar í það án þess að brjóta trúnað,“ segir hann.

Þarf meiri stuðning

Guðmundur nefnir að hann vilji veita íbúum betri þjónustu. Það hafi stundum verið erfitt að fá til starfa fagmenntað fólk. Hann gæti hugsað sér að njóta meiri stuðnings hvað þetta varðar. „Við þurfum mun meira fjármagn til þess að geta veitt betri þjónustu. Við höfum auðvitað metnað og ákveðna sýn en myndum vilja skilgreina betur þörfina. Við myndum vilja meiri stuðning við íbúa á heimilum sínum og í starfi. Til þess þarf fleira öflugt starfsfólk. Við höfum nú þegar stórt og skemmtilegt samfélag hér. Hér eru núna sjálfboðaliðar, háskólanemar og starfsfólk. Hér er breitt litróf en við getum alltaf gert betur,“ bendir hann á og greinir frá því hvað hann telji mest krefjandi í aðbúnaði í dag.



„Það eru eldri borgarar á Sólheimum. Við viljum gera vel við þá en á sama tíma erum við ekki hjúkrunarheimili. Þetta kallar á að við séum einmitt gagnrýnin en hlustum á sama tíma á raddir íbúa. Þeir eldri borgarar sem eru hér, vilja vera hér áfram.“



Stoltur af öllum íbúum

Guðmundur segir kost að einstaklingar, þar með taldir fyrrverandi íbúar Sólheima séu meðvitaðir um rétt sinn og leiti til réttindagæslumanna. „Mig langar bara að segja að ég er ánægður með þá sterku einstaklinga sem hafa rætt opinberlega um málefni sín og Sólheima. Ég er stoltur af öllum íbúum Sólheima. Við sem samfélag erum alltaf að þroskast og mikilvægur hluti af því er að taka þátt í umræðu sem þessari af yfirvegun,“ segir Guðmundur. „Gagnrýni getur verið sár, stundum óréttmæt. Stundum réttmæt. Mér finnst bara mikilvægt að fá tækifæri til að skýra hlutina út og halda samtalinu áfram.“ 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×