Viðskipti innlent

Ingólfur, Elín og Tryggvi Björn hætt hjá Íslandsbanka

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tryggvi Björn, Elín og Ingólfur eru á meðal þeirra tuttugu sem misstu vinnuna hjá Íslandsbanka.
Tryggvi Björn, Elín og Ingólfur eru á meðal þeirra tuttugu sem misstu vinnuna hjá Íslandsbanka. vísir
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VÍB, eignastýringu bankans, og Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka, hafa látið af störfum hjá bankanum.

Þetta staðfestir Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, í samtali við Vísi.

Jón Bjarki Bentsson hefur tekið við sem aðalhagfræðingur og mun alfarið sjá um þjóðhagsgreiningu bankans, en að sögn Eddu verða talsverðar breytingar gerðar á starfi greiningardeildar Íslandsbanka.

Stjórnendum, millistjórnendum og sérfræðingum sagt upp

Íslandsbanki sendi frá sér tilkynningu í dag um að tuttugu manns hafi verið sagt upp störfum vegna skipulagsbreytinga. Aðspurð segir Edda að fyrst og fremst sé um að ræða stjórnendur, millistjórnendur og sérfræðinga í höfuðstöðvum bankans.

Birna Einarsdóttir bankastjóri segir í tilkynningunni að verið sé að einfalda bankaviðskiptin og aðlaga skipulag bankans að breyttu umhverfi. Það sé öllum fyrirtækjum hollt að fara í gegnum skipulagsbreytingar og í því liggi fjölmörg tækifæri.

„Með þessum breytingum blæs bankinn til sóknar og treystir undirstöður fyrir aukna skilvirkni. Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs við viðskiptavini okkar þar sem við munum einblína á enn betri þjónustu í nýju og einfaldara skipulagi,“ segir hún.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×