Erlent

Vísbendingar um að Rússar geti grafið undan lýðræðinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Rússar hafa getuna til þess að hafa áhrif á bresk stjórnmál með netárásum, að sögn Borisar Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. Breska leyniþjónustan ætla að kynna fulltrúm þarlendra stjórnmálaflokka hvernig þeir geta varist rússneskum tölvuárásum.

Vísbendingar eru um að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum síðasta haust, meðal annars með því að láta brjótast inn í tölvupósta Demókrataflokksins.

Johnson sagði í viðtali við ITV í dag að enginn vafi léki á því að Rússar hefðu beitt „alls kyns bellibrögðum“ með pólitískum afskiptum. Engar sannanir liggi þó fyrir um að Rússar séu að grafa undan lýðræðinu í Bretlandi þessa stundina.

„Við höfum ekki þær sannanir. VIð höfum hins vegar margar vísbendingar um að Rússar hafi getuna til þess,“ sagði utanríkisráðherrann sem sakaði Rússa um að hafa tekið niður franskar sjónvarpsstöðvar, hakka Demókrataflokkinn og jafnvel um að hafa átt aðild að tilraun til að ráða forsætisráðherra Svartfjallalands af dögum.

Fyrirhugað er að Johnson fundi með Sergei Lavrov, rússneska stafsbróður sínum, á næstu vikum, að því er segir í frétt The Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×