Innlent

Lána fyrir íbúðakaupum: Nokkrar lánaumsóknir borist á fyrsta degi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lánasjóðurinn Framtíðin býður nú viðbótarlán vegna íbúðarkaupa með verðtryggðum vöxtum. Framkvæmdastjóri sjóðsins segir að nú þegar hafi nokkrar lánaumsóknir borist en byrjað var að bjóða upp á þjónustuna í morgun. Lánin komi til með að henta þeim sem vantar viðbót fyrir útborgun í íbúð.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að lánasjóðurinn Framtíðin, sem er fjármagnaður í gegnum skuldabréfasjóði í stýringu hjá fjármálafyrirtækinu Gamma, hafi fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til að bjóða fasteignalán.

Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar, útskýrir að um sé að ræða viðbótarlán vegna íbúðarkaupa, til að hámarki 25 ára á öðrum eða þriðja veðrétti, frá einni og upp í átta milljónir króna. Þannig geta lántakendur skuldsett sig um sem nemur 90 % af verði fasteigna. „Við erum að fylgja fyrirmyndum erlendis frá,“ segir Hrólfur Andri.

Ef keypt er 40 milljón króna íbúð og 26 milljónir eru fengnar að láni hjá annari lánastofnun á 3,5 prósent vöxtum og einstaklingur leggur til 6 milljónir í eigið fé yrðu vextir til sjóðsins 6,10 prósent. Þannig yrði fyrsta greiðsla 101.130 krónur til lánastofnunarinnar og 52.611 krónur til sjóðsins. Fyrsta greiðslan væri því samtals 157.741. Ef lántakinn kemur með 7 milljónir í eigið fé yrðu  vextirnir á viðbótarláninu 5,84 prósent og fyrsta greiðsla 44.996 krónur  af viðbótarláninu. Þannig ráðast vextirnir, sem eru verðtryggðir, af því hversu mikið eigið fé lántakinn leggur til.

Hrólfur segir að eftirspurnin sé greinilega til staðar. „Við opnuðum vefinn í gærkvöldi og það eru nokkrar umsóknir komnar. Bæði í nótt og í morgun.“

En er með þessu ekki verið að hvetja til of mikillar skuldsetningar? 

„Svona lán eru í boði á markaðnum í dag. Sumir bankarnir eru að lána allt að 85 prósent fyrir fyrstu kaupendur. Við vitum að fólkið er að brúa bilið með allskonar skammtímafjármögnun. Þetta er í raun ekkert stór breyting að við séum núna að lána upp í 90 prósent. Þetta eru 25 ára lán þannig þau eru miklu viðráðanlegri en einhver skammtímalán,“ segir Hrólfur Andri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×