Innlent

Ferðaðist um Evrópu á útrunnu vegabréfi

Jakob Bjarnar skrifar
Sveinn Dal. Svo heppilega (eftir því hvernig á það er litið) vill til að hann er sjarmatröll og það kom honum í vélina.
Sveinn Dal. Svo heppilega (eftir því hvernig á það er litið) vill til að hann er sjarmatröll og það kom honum í vélina. atli geir
Sveinn Dal Sigmarsson framkvæmdastjóri er einn þeirra sem var í flugvél Primera Air sem hlekktist á í lendingu á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn. Það sem meira er, Sveinn var að ferðast á útrunnu vegabréfi – passinn er reyndar löngu útrunninn en það hefur ekki aftrað Sveini frá því að flækjast um alla Evrópu.

Vegabréfið rann út í janúar 2016

„Já. Rétt áður en ég steig um borð í flugvél Primera Air í Alicante síðastliðinn föstudag, tók glöggur og gullfallegur starfsmaður flugvallarins eftir því að vegabréf mitt er útrunnið. Það rann út í janúar 2016 og var þessi starfsmaður sú síðasta af mörgum (check - in, öryggisleit og fleira) sem tékkuðu og skoðuðu þennan pappír þennan dag á leið minni inni í rörið,“ segir Sveinn.

Sveinn lýsir því fjálglega að hann hafi skrúfað frá öllum sínum þokka og haft uppi saklaust daður á hinum ýmsu tungumálum sem leiddu að endingu til þess að starfsmaður flugvallarins hleypti honum um borð.

„Ég sjálfur hafði ekki grænan grun um að passinn væri útrunninn, enda ekki kíkt á það. Einnig hafði ég flogið til Svíþjóðar og Frakklands eins og helmingur þjóðarinnar síðastliðið sumar og reitt fram þennan útrunna passa með stolti án þess að nokkur gerði athugasemdir við það.“

Farið víða án vandkvæða á útrunnum passa

En, hvernig má þetta vera, miðað við þá ofuráherslu sem lögð er á vegabréfið og ferðalanga, hvar sem komið er? En, svo virðist þetta tilstand engu skipta, þegar til kastanna kemur. Sveinn segist ekki vita það.

„Samkvæmt Schengen þá á ekki að þurfa passann heldur gilt skilríki eins og ökuskírteini. En eftir öll þessi hryðjuverk og flóttamannaflaum þá eru þetta flugfélögin sem heimta vegabréf og ekkert annað. En athyglisgáfan er ekki meiri svo að ég fór til Svíþjóðar og Frakklands í fyrra og svo núna til Spánar.“

Sveinn segist vita til þess að kona nokkur hafi ekki fengið að ferðast með Primera vegna vegabréfs sem var útrunnið. Sú þurfti að bjarga sér um bráðabirgðavegabréf til að komast í flug næsta dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×