Innlent

Allt stefnir í að í ár verði annað met slegið í fjölda hælisumsókna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Allt stefnir í það að í ár verði met slegið í fjölda hælisumsókna hér á landi. Það sem af er ári hafa um 300 umsóknir borist. Sviðstjóri hjá Útlendingastofnun segir stofnunina búa sig undir að allt að 2000 manns sæki um hæli í ár.

Fjöldi umsókna á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs var samanlagt 287 eða næstum helmingi meiri en á sama tíma á síðasta ári (179). 

67 einstaklingar sóttu um hæli á Íslandi í janúar en til samanburðar sóttu 50 um hæli í sama mánuði á síðasta ári. 71 einstaklingur sótti um hæli í febrúar en umsóknirnar voru 38 í febrúar í fyrra. Þá sóttu 85 manns um hæli í mars og 64 í apríl sem er einnig mikil aukning frá því á síðasta ári. Áframhaldandi fjölgun umsókna það sem af er ári, samanborið við árið 2016, bendir til þess að heildarfjöldi umsókna verði meiri í ár en í fyrra

„Á síðasta ári tókum við við rétt rúmlega 1130 umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi og það sem af er þessu ári gefur okkur tilefni til að ætla það að við séum að horfa á að minnsta kosti jafn stórt og mjög líklega stærra ár þegar kemur að þessum fjölda. Jafnvel allt á bilinu 1700 til 2000 umsóknir sem við getum átt von á í ár,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðstjóri hjá Útlendingastofnun.

Hann segir að nú sé unnið að undirbúningi við að taka á móti fólkinu í góðu samstarfi við dómsmálaráðuneytið. Þá sé lögð áhersla á það að stofnunin verði í stakk búin til að afgreiða málin fljótt og örugglega.

Þá útskýrir Þorsteinn að ný ríki sé að bætast á listinn. „Þar ber kannski hæst að við erum að sjá fleiri umsóknir frá Írak og Pakistan,“ segir Þorsteinn og bætir við að þó séu Albanir enn fjölmennasti hópurinn.

Þorsteinn segir stöðuna í búsetuúrræðum stofnunarinnar þokkalega eins og staðan er í dag. „Við erum að horfa til haustsins og erum að reyna vera undir það búin að geta tekið við fleiri einstaklingum á skömmum tíma,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×