Erlent

Leiddist, bjó til sprengju og kom henni fyrir í lest í London

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Damon Smith útbjó sprengjuna heima hjá sér því honum leiddist, sagði hann fyrir dómi.
Damon Smith útbjó sprengjuna heima hjá sér því honum leiddist, sagði hann fyrir dómi. vísir/epa
Dómstóll í Bretlandi sakfelldi í dag tvítugan karlmann fyrir að hafa komið sprengju fyrir í neðanjarðarlest í Lundúnum í október síðastliðnum. Pilturinn, Damon Smith, viðurkenndi verknaðinn en sagði að um hrekk hafi verið að ræða.

Smith útbjó sprengjuna heima hjá sér eftir að hafa lesið greinar um sprengjugerð frá hryðjuverkasamtökunum al-Quaeda. Hann kom sprengjunni fyrir í bakpoka og skildi hann eftir í lest á Jubilee-línunni í London. Farþegar urðu varir við bakpokann og gerðu lestarstjóra viðvart.

Pilturinn var handtekinn í framhaldinu og sagðist hann þá hafa búið til sprengjuna í tilefni af hrekkjavöku. Hann er greindur á einhverfurófi og sagður hafa nær alla tíð haft áhuga á vopnum. Þá sagðist hann hafa haft áhuga á sprengjugerð allt frá tíu ára aldri og útbúi sprengjur þegar honum leiðist.

Dómurinn taldi athæfi Smith til þess fallið að valda umfangsmiklum skaða og sakfelldi hann fyrir verknaðinn. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að ekki hafi tekist að sanna að hann hafi ætlað sér að fremja hryðjuverk, og því hafi hann ekki verið ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×