Fótbolti

Einn í bann fyrir að pissa í átt að áhorfendum og annar lamdi nuddarann í klessu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mynd tengist efni fréttar ekki beint.
Mynd tengist efni fréttar ekki beint. vísir/getty
Það eru áhugaverðir hlutir í gangi í ítölsku D-deildinni þessa dagana eins og má lesa í frétt ESPN FC um tvo leikmenn sem úrskurðaðir hafa verið í fimm leikja bann.

Giovanni Liberti, leikmaður Turris, fékk bann fyrir að pissa í átt að stuðningsmönnum Sarnese í 3-3 jafntefli liðanna þegar komið var fram í uppbótartíma.

Aganefnd D-deildarinnar segir í skýrslu sinni að hann hafi vissulega pissað í áttina að fólkinu í stúkunni, sýnt óviðeigandi látbragð og um leið berað á sér kynfærin.

Turris ætlar að áfrýja úrskurði aganefndarinnar þar sem hann segist ekki hafa gert neitt af þessu og félagið stendur með honum.

„Það er vatnsbrunnur nálægt veggnum þar sem leikmaðurinn var. Hann var að drekka úr honum og laga til treyjuna sína sem, samkvæmt reglum, á að vera girt ofan í stuttbuxurnar. Forráðamen Sarnese hafa sagt okkur að leikmaðurinn gerði ekkert af því sem talað er um,“ segir Antonio Colantonio, forseti Turris.

Á meðan Turris var að pissa, nú eða fá sér vatn og laga treyjuna sína, var annar leikmaður í veseni sem kostaði hann einnig fimm leikja bann.

Francesco Ferrieri, leikmaður Frattese, tók upp á því að berja nuddara liðsins Nardo í klessu. Leikur liðanna var stöðvaður á meðan stuðningsmenn slógust í stúkunni og virtist Ferrieri svo spenntur að fá að taka þátt að hann kýldi, sparkaði í og sló nuddarann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×