Erlent

Yngsta konan í ráðherrasætinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, formaður Verkamannaflokksins á Nýja-Sjálandi, verður yngsti kvenkyns forsætisráðherrann í sögu ríkisins. Þetta varð ljóst eftir að Winston Peters, formaður flokksins Nýja-Sjáland fyrst, tilkynnti að flokkur hans hefði ákveðið að ganga í ríkisstjórnarsamstarf með Verkamannaflokknum.

Flokkur Ardern fékk næstflest sæti á nýsjálenska þinginu í þingkosningum sem fóru fram þann 23. september síðastliðinn. Það dugði ekki til að fá meirihluta þingsæta en með stuðningi Nýja-Sjálands fyrst og Græningja mun Ardern nú mynda ríkisstjórn og setjast í forsætisráðherrasætið með níu þingsæta meirihluta.

BBC greinir frá því að það hafi einna helst verið persónufylgi Ardern sem tryggði Verkamannaflokknum góðan kosningasigur. Flokkurinn bætti við sig fjórtán þingsætum á meðan Þjóðflokkurinn, sem fékk þó flest þingsæti, tapaði þremur.

Mikil stuðningsbylgja við Verkamannaflokkinn, sem fékk heitið „Jacinda-æði“, skilaði flokknum talsverðu fylgi þótt stuðningur hafi minnkað nokkuð dagana fyrir kosningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×