Sport

Bara mamma Birnu Kristínar hefur gert betur en dóttirin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birna Kristín Kristjánsdóttir með gullið um hálsinn í Laugardalshöllinni.
Birna Kristín Kristjánsdóttir með gullið um hálsinn í Laugardalshöllinni. vísir/andri marinó
Birna Kristín Kristjánsdóttir, hin bráðefnilega frjálsíþróttastúlka úr Breiðabliki, gerði sér lítið fyrir og vann 60 metra hlaup kvenna á Meistaramóti Íslands innanhúss sem fram fór í Laugardalshöll um helgina.

Birna er fædd árið 2002 og er því á fimmtánda aldursári en hún kom í mark á 7,88 sekúndum, fjórum þúsundustu á undan Andreu Torfadóttur úr FH sem kom í mark á sama tíma, sjónarmun á eftir Birnu. Í þriðja sæti var María Rún Gunnlaugsdóttir á 7,92 sekúndum.

Birna er, þrátt fyrir mjög ungan aldur, ekki yngsti Íslandsmeistarinn innanhúss frá upphafi samkvæmt útreikningum frjálsíþróttasambandsins. Geirlaug Geirlaugsdóttir úr Ármanni varð Íslandsmeistari á 14. aldursári en það er einmitt móðir Birnu Kristínar.

Birna hefur verið að láta vita af sér á síðustu dögum og er hún ein skærasta stjarna innanhússtímabilsins til þessa. Á stórmóti ÍR á dögunum vann þessi unga stúlka 60 metra hlaupið, 60 metra grindahlaupið og langstökkið.

Hún keppti einnig í langstökki í Höllinni um helgina en komst ekki í úrslitin. Engu að síður frábær árangur að vera orðinn Íslandsmeistari fyrir fimmtán ára aldurinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×