„Allt sem ég sá voru vopnaðir lögreglumenn og lögreglubílar, og sérstaklega þyrlur. Allt sem ég heyrði voru sírenur,“ segir Hlér Kristjánsson nemi sem var á svæðinu í gær.

Þegar Hlér spurði starfsmennina hvað væri að ske sögðu þeir að ekkert væri að. Síðan var honum leyft að fara upp. „Þegar ég loksins kom upp, og rétt missti af sólsetrinu vegna tafarinnar, náði ég rétt að taka eina mynd og svo var öllum sagt að við þyrftum að fara niður á næstu hæð fyrir neðan.“
Þar beið Hlér og var mikill ruglingur með hvort hann fengi að fara upp aftur eða fara niður á jörðina. „Lögreglan virtist hafa sagt okkur að bíða en seinna sagt öryggismönnunum að segja okkur að koma okkur niður en sumir trúðu ekki öryggismönnunum og fóru að rífast,“ segir Hlér og bætir því við að að lokum hafi allir farið niður.
„Þegar ég kom út spurði ég lögreglumann með einstaklega stóra byssu hvað væri í gangi, en hann sagðist ekkert vita. […] En lögreglan sá um þetta mjög vel og voru allir mjög vingjarnlegir.“
Talsmaður franska innanríkisráðuneytisins sagði í yfirlýsingu að of snemmt væri að segja til um hvað lægi að baki árásinni. Þó væri ljóst að vísvitandi hefði verið ráðist á lögreglumenn. Skrifstofa ríkissaksóknara sagði jafnframt að hryðjuverkadeild lögreglu rannsakaði málið.