Fótbolti

Starf De Boer hangir á bláþræði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank De Boer, stjóri Crystal Palace.
Frank De Boer, stjóri Crystal Palace. Vísir/Getty
Frank De Boer hangir í starfi sínu sem knattspyrnustjóri Crystal Palace eftir viðræður við stjórnarformann félagsins í gær. Þetta er fullyrt á vef Guardian.

De Boer hefur farið illa af stað í nýja starfi en undir hans stjórn hefur Crystal Palace tapað fyrstu þremur leikjum sínum í deildinn og ekki enn skorað mark.

Hollendingurinn hefur ríghaldið í að láta lið sitt spila samkvæmt 3-4-3 leikkerfinu. En samkvæmt fréttinni mun De Boer vera reiðubúinn nú að aðlaga sig að ensku úrvalsdeildinni og breyta um leikstíl.

Þá voru forráðamenn Crystal Palace ekki ánægðir með ummæli De Boer eftir 2-0 tapið gegn Swansea á laugardag en þá sakaði hann leikmenn sína um að hafa skort hugrekki.

Crystal Palace hefur hug á að styrkja leikmannahóp sinn áður en lokað verður fyrir félagaskipti á fimmtudagskvöld. Mamadou Sakho, leikmaður Liverpool, hefur verið orðaður við félagið og er sagður kosta 25 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×