Leifur Andri hefur alla tíð leikið fyrir uppeldisfélag sitt og hefur gengið undir nafninu „Herra HK“ undanfarin ár. Hann er leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins með yfir 400 leiki. Jafnframt hefur hann borið fyrirliðabandið undanfarin ár. Nú þarf félagið hins vegar að finna sér nýjan fyrirliða.
„Virkilega erfið ákvörðun enda með risa stórt HK hjarta en ég tel að það sé réttur tímapunktur til að fara einbeita sér að öðrum verkefnum núna. Ég geng stoltur frá borði og ég hlakka til að fylgjast með strákunum frá öðru sjónarhorni í sumar en ég veit að þeir munu skila liðinu á þann stað sem HK á heima, í deild þeirra bestu,“ segir Leifur Andri í tilkynningu HK.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Leifur Andri verði heiðraður fyrir allt sem hann hefur gefið félaginu. Það verður auglýst nánar síðar.