Innlent

Leita að flaki SS Wigry

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Witek Bogdanski og Stanisław Władysław Śliwa, hershöfðingi Stofnunar Józefs Pilsudskis, sem sæmdi Witek gullkrossi í Póllandi á dögunum fyrir vinnu sína í tengslum við SS Wigry.
Witek Bogdanski og Stanisław Władysław Śliwa, hershöfðingi Stofnunar Józefs Pilsudskis, sem sæmdi Witek gullkrossi í Póllandi á dögunum fyrir vinnu sína í tengslum við SS Wigry.
Freista á þess í sumar að finna flak pólska flutningaskipsins SS Wigry sem fórst í aftakaveðri nærri Mýrum janúar 1942 en af 27 manna áhöfn lifðu aðeins tveir af, einn Íslendingur og einn Pólverji.

Farið verður í köfunarleiðangur í byrjun júlí til þess að freista þess að finna flak SS Wigry en með í för verður Witek Bogdanski, sýningarstjóri minningarsýningar um skipið sem opnuð var í lok maí í Sjóminjasafninu í Reykjavík.

Witek beitti sér meðal annars fyrir byggingu líkans af skipinu, sem er til sýningar í Sjóminjasafninu, og í sumar verður sýningin einnig sett upp á Sjóminjasafninu í Gdansk, að því er segir í tilkynningu frá Samskipum en Witek starfar þar og styrkti fyrirtækið smíði líkansins.

Þá var Witek nýlega boðið til Póllands þar sem minningarskjöldur um skipstjóra SS Wigry var afhjúpaður í Gdynia.

„Hann var við það tækifæri sæmdur gullkrossi Stofnunar Józefs Pilsudskis í Póllandi, en Pilsudski var pólsk þjóðhetja sem dó 1935. Þá fékk Witek einnig afhenta viðurkenningu frá pólska sjóhernum, sem hann hlaut meðal annars fyrir rannsóknarvinnu sína tengda SS Wigry,“ að því er fram kemur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×