Fótbolti

Tromsö hafnaði öðru tilboði Twente í Aron

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Sigurðarson vill fara til Hollands en Tromsö er búið að hafna tveimur tilboðum.
Aron Sigurðarson vill fara til Hollands en Tromsö er búið að hafna tveimur tilboðum. vísir/afp
Norska úrvalsdeildarfélagið Tromsö hafnaði öðru tilboði Twente í íslenska landsliðsmanninn Aron Sigurðarson, samkvæmt heimildum Vísis.

Eins og Vísir greindi frá í síðustu viku átti Tromsö von á öðru tilboði hollenska úrvalsdeildarfélagsins í framherjann en því fyrsta var hafnað.

Tromsö fannst annað tilboðið einnig of lágt, samkvæmt heimildum Vísis, og er nú óvíst hvort Aron fari til Twente sem þarf að hækka tilboð sitt öðru sinni ætli það að landa leikmanninum. Sjálfur er hann mjög spenntur fyrir þessu flotta tækifæri.

„Ég sagði í viðtali fyrir tveimur árum að ég vildi komast til Hollands. Það hefur verið markmið hjá mér svo það var skemmtilegt þegar umboðsmaðurinn hringdi og sagði mér frá Twente. Þetta er spennandi deild,“ sagði Aron í viðtali við Fótbolti.net eftir að fyrsta tilboðið barst.

Tromsö er í miklu basli í norsku úrvalsdeildinni þar sem það er í 15. og næstsíðasta sæti með fjórtán stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Það er ekki búið að vinna í síðustu sex leikjum og hefur aðeins safnað tveimur stigum af síðustu 18 mögulegum.

Aron er búinn að skora þrjú mörk og leggja upp tvö á tímabilinu fyrir Tromsö en í heildina er Reykvíkingurinn búinn að skora sex mörk og leggja upp önnur sjö í 39 leikjum í norsku úrvalsdeildinni síðan hann kom til Tromsö frá Fjölni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×