Innlent

Fæðingum fækkar fyrir norðan

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. vísir/pjetur
Fæðingum á sjúkrahúsinu á Akureyri hefur fækkað um 13 prósent frá því í fyrra. Fæðingar á fyrstu fimm mánuðum þessa árs voru einungis 144 talsins. Bjarni Jónasson, forstjóri sjúkrahússins á Akureyri, segir að þetta árið sé fólk fyrir norðan greinilega að eiga færri börn.

„Þetta sveiflast oft á milli ára og það geta verið töluvert miklar sveiflur,“ segir Bjarni. Hann segir að hann hafi einu sinni séð lægri tíðni áður en að þetta rokki töluvert. Hann segir erfitt að segja til um það hvort að þetta muni jafnast út þegar líður á árið.

Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðuljósmóðir á sjúkrahúsinu á Akureyri, segir í samtali við Vísi að á meðalári séu 420 fæðingar. Í fyrra voru fæðingar 387 talsins. Ingibjörg segir að áætlaðar fæðingar séu ekki skráðar að undanskildum þeim sem búist sé við á næstu tveimur til þremur mánuðum. Mikill munur sé einnig á milli daga. Fæðingartíðni hafi hins vegar verið að lækka.

„Svo hefur það lækkað og lækkað og lækkað og lækkað og ég vona að við förum ekki niður fyrir 387 þetta árið,“ segir Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×