Innlent

Starfsmaður Herjólfs með sýnilega áverka eftir barsmíðar farþega

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Starfsmanninum hefur verið boðin áfallahjálp.
Starfsmanninum hefur verið boðin áfallahjálp. Vísir/Magnús Hlynur
„Hann var rammur í afli og í ástandi sem við viljum ekki vera að mæta fólki í,“segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, um atvik sem átti sér stað í Herjólfi síðastliðinn föstudag þegar farþegi réðst á starfsmann skipsins. Mbl greindi fyrst frá málinu.

Handalögmál í landgangi

Farþeginn veittist að einum stýrimanni Herjólfs með þeim afleiðingum að starfsmaðurinn slasaðist og áverkar eru sýnilegir. Gunnlaugur segir alla vera afar slegna yfir þessu atviki. Hann segir farþegann, sem um ræðir, hafa verið ansi dónalegan við fólkið í afgreiðslunni stuttu áður en hann fór um borð í bátinn. Honum hafi síðan orðið sundurorða við stýrimanninn þegar báturinn kom í Landeyjahöfn og réðst á hann í landganginum með miklum látum að sögn Gunnlaugs.



„Blessunarlega voru þarna einstaklingar, bæði úr áhöfn og aðrir farþegar, sem brugðust við og sáu að þarna var maður sem var auðvitað engan veginn í jafnvægi og komu mínum góða starfsmanni til aðstoðar,“ segir Gunnlaugur í samtali við Vísi.



 

Gunnlaugur Grettisson segir málið litið alvarlegum augum og að eitt tilvik sem þetta sé of mikið.vísir/óskar p. friðriksson

Málið í rannsókn

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að farþeginn sé andlega veikur og hafi í kjölfar handtökunnar verið fluttur á sjúkrahús. Ekki sé vitað til þess að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna.

Maðurinn er hálfur Íslendingur að sögn lögreglu og nefnir Sveinn að þeir hafi vitað af honum síðan hann kom til landsins. 

Afar sjaldgæft

Gunnlaugur segir atvik sem þetta einstakt og hann man ekki eftir öðru eins. Fólk eigi þó til að vera dónalegt við starfsmenn en barsmíðar sem þessar séu sem betur fer afar sjaldgæfar. Hann nefnir að starfsmenn séu þjálfaðir í að takast á við erfið tilfelli sem geti komið upp.

„Þeir hafa fengið kennslu í fangbrögðum eins og lögreglan notar, en það er reyndar svolítið síðan síðast. Auðvitað erum við í þannig starfi að við erum fyrst og fremst í ferðaþjónustu og erum að afgreiða rúmlega 340 þúsund farþega sem eru í 99,9 prósent tilfella algjörlega til fyrirmyndar,“ segir Gunnlaugur.



Allt tekið til skoðunar

Gunnlaugur segir að eftir atvikið hafi verklagsreglur og öryggismál verið skoðuð sérstaklega og strax hafi verið hafist handa við að bæta það sem bæta mátti.

Starfsmanninum hefur verið boðið upp á áfallahjálp ef hann þess óskar. Starfsmaðurinn hefur þó hafið vinnu aftur eftir atvikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×