Erlent

Rússneskur stjórnarandstæðingur sakfelldur fyrir fjárdrátt

atli ísleifsson skrifar
Alexei Navalny.
Alexei Navalny. Vísir/AFP
Dómstóll í rússnesku borginni Kirov hefur sakfellt Alexei Navalny, einn helsta stjórnarandstæðing landsins, fyrir fjárdrátt.

BBC greinir frá því að jafnvel þó að Navalny fái einungis skilorðsbundinn dóm komi það í veg fyrir að hann geti boðið sig fram í rússnesku forsetakosningunum á næsta ári.

Navalny var sakfelldur fyrir að stýra hópi sem dró um 16 milljónir rúbla, um 55 milljónir íslenskra króna, úr sjóðum timburfélags Kirov-ríkis.

Navalny segir sjáfur að stjórnmálalegar ástæður liggi að baki ákæru og dómi. Brot hans eru sögð hafa verið framin á þeim tíma þegar hann gegndi stöðu ráðgjafa ríkisstjóra Kirov.

Um var að ræða endurupptöku á málinu, en Mannréttindadómstóll Evrópu hafði áður úrskurðað að upphaflega dómsmeðferðin árið 2013 hafi verið óréttlát.

Hinn fertugi Navalny er þekktur fyrir baráttu sína gegn spillingu og hefur þar sérstaklega beint sjónum sínum að háttsettum mönnum í Kremlarhöll. Sjálfur segir hann málið allt vera tilraun andstæðinga hans til að halda honum fjarri stjórnmálalífi landsins.

Uppfært 13:36:

Dómstóllinn hefur dæmt Navalny í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir brotin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×