Þetta kom fram í máli forstjórans á uppgjörsfundi Icelandair Group fyrir árið 2016 sem fram fór í morgun. Bréf í Icelandair hafa lækkað um sextíu prósent í verði frá því í apríl í fyrra og hafa nú lækkað á hverjum degi í heila viku eftir svarta afkomuspá sem birtist í síðustu viku.
Ítarlega er fjallað um stöðu Icelandair í Markaðnum í dag þar sem rætt er við hluthafa og sérfræðing í markaðsviðskiptum.
Kynslóð sem breytir neyslumynstrinu
Björgólfur var spurður út í það á fundinum hvort hann velti fyrir sér að breyta rekstrinum og færa t.d. einhvern hluta starfsemi Icelandair í átt til lággjaldaflugfélaga.
„Það koma kynslóðir sem breyta neyslumynstrinu. Það er væntanlega ein að koma þannig núna. Ég man ekki hvað hún er kölluð…. me, me, me,“ sagði Björgólfur og átti við aldamótakynslóðina.
„Ég veit ekki hvort þessi kynslóð vilji endilega bendla sig við low-cost,“ sagði forstjórinn. „Ég held hún vilji bara fá þjónustu og eiga möguleika á að kaupa þjónustu. Við verðum að breyta okkur í þessa áttina.“
Bréf í Icelandair hafa lækkað um þrjú prósent í morgun (klukkan 10:42) og verslað hefur verið með bréf í félaginu fyrir 241 milljón króna það sem af er degi. Icelandair er í sérflokki íslenskra félaga á hlutabréfamarkaði þegar kemur að kaupum og sölum á bréfum.
Fundinn í heild sinni má sjá hér að neðan.