Enski boltinn

Diego Costa klúðraði víti og Liverpool endaði taphrinuna á Anfield | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simon Mignolet bjargaði stigi fyrir Liverpool í kvöld þegar hann varði vítaspyrnu frá Diego Costa þrettán mínútum fyrir leikslok.

Liverpool var búið að tapa þremur leikjum í röð á Anfield á stuttum tíma og tókst að enda taphrinuna þótt að heimamenn hafi viljað meira út úr leiknum í kvöld.

Chelsea er komið með níu stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir þetta 1-1 jafntefli á móti Liverpool á Anfield í kvöld. Tottenham og Arsenal náði ekki að nýta sér þetta, Tottenham gerði jafntefli og Arsenal tapaði á heimavelli. Chelsea jók því forskot sitt um eitt stig og gátu Chelsea-menn því fagnað stiginu í leikslok. 

Liðsmenn og knattspyrnustjóri Chelsea, Antonio Conte, voru mun ánægðari með úrslitin en liðsmenn Liverpool sem þurftu helst að vinna leikinn til að koma sér aftur inn í titilbaráttuna.

Liverpool fékk færi til að tryggja sér sigur og þá sérstaklega Roberto Firmino en besta færi til að bæta við mörkum fékk þó  Diego Costa. Diego Costa fiskaði vítið sjálfur en Simon Mignolet varði frá honum.

David Luiz kom Chelsea í 1-0 með marki beint úr aukaspyrnu á 25. mínútu en Georginio Wijnaldum jafnaði með skalla á 57.mínútu. Bæði lið fengu færi til að tryggja sér sigurinn en sigurmark var ekki í spilunum á Anfield í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×