Fótbolti

Oscar: Peningar ekki eina ástæða þess að ég fór til Kína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oscar fékk höfðinglegar móttökur við komuna til Shanghai.
Oscar fékk höfðinglegar móttökur við komuna til Shanghai. vísir/getty
Brasilíumaðurinn Oscar segir að peningar séu ekki eina ástæða þess að hann ákvað að fara frá Chelsea og til kínverska liðsins Shanghai SIPG.

Félagskiptin vöktu mikla athygli enda Oscar aðeins 25 ára gamall. Shanghai greiddi 60 milljónir punda fyrir brasilíska miðjumanninn sem fær 400.000 pund í vikulaun í Kína.

Oscar hefur verið gagnrýndur fyrir að láta glepjast af Kínagullinu en hann segir að möguleikinn á meiri spilatíma hafi einnig haft sitt að segja.

„Ég fékk tilboð frá Kína í fyrra en það fór ekkert lengra. Núna hlustaði ég á tilboð þeirra og heillaðist,“ sagði Oscar í samtali við FourFourTwo.

„Í hvert sinn sem ég talaði við þá komu þeir með betra tilboð. Fjárhagslegi ávinningurinn var mikilvægur en þetta snerist ekki bara um peninga. Ég fer ekki einn, fjölskyldan fer með mér svo borgin þurfti að vera fín. Ég spilaði ekki mikið fyrir Chelsea svo ég tók tækifærinu sem bauðst fegins hendi.“

Þrátt fyrir að Oscar hafi ekki spilað mikið fyrir Chelsea undir það síðasta segir hann að það hafi verið erfitt að kveðja Lundúnaliðið.

„Það var mjög erfitt að fara. Ég spilaði þarna í fimm ár og á svo margar góðar minningar. Ég ber mikla virðingu fyrir stuðningsmönnunum og liðinu,“ sagði Oscar sem ber ekki neinn kala til Antonios Conte, knattspyrnustjóra Chelsea.

„Conte er fínn náungi. Hann virti ákvörðun mína og skildi að ég vildi spila meira. Þegar hann kom til Chelsea sagði ég honum að það væru félög sem hefðu áhuga á mér. Hann sagði að ég væri inni í áætlunum hans svo ég ákvað að halda kyrru fyrir. En hlutirnir breyttust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×