Erlent

Dönsk stúlka ákærð fyrir hryðjuverk

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. vísir/afp
Ríkissaksóknari í Danmörku hefur gefið út ákæru á hendur sextán ára stúlku sem grunuð er um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk í landinu. Hún er fyrsta konan í sögu Danmerkur sem fær á sig ákæru af þessu tagi.

Stúlkan var handtekin í janúar í fyrra með sprengiefni sem hún hugðist nota til þess að sprengja upp tvo skóla; eigin skóla í bænum Kundby og einkaskóla fyrir gyðinga í Kaupmannahöfn.

Danska lögreglan hefur varist allra fregna þar til í dag þegar ákæra var gefin út. Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að stúlkan hafi verið langt komin í undirbúningi sínum að sprengjuárásunum tveimur og að ætlunarverk hennar hafi verið augljóst. Því hafi hún verið ákærð fyrir hryðjuverk.

Tuttugu og fimm ára karlmaður var einnig handtekinn í tengslum við málið. Hann er sagður hafa barist með vígamönnum í Sýrlandi og góðvinur stúlkunnar. Honum hefur nú verið sleppt úr haldi og í yfirlýsingunni segir að rannsókn á máli hans hafi verið ítarleg, en að ekki hafi verið grundvöllur til þess að gefa út ákæru á hendur manninum.

Stúlkan er sögð hafa nýlega skipt yfir í íslam, og nágranni hennar sagði í samtali við danska fjölmiðla að stúlkan hafi reynt að fá aðra Dani til þess að gera hið sama.

Réttarhöld yfir stúlkunni hefjast 7. apríl næstkomandi og á hún yfir höfði sér að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi, verði hún fundin sek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×