Enski boltinn

Gylfi strax búinn að skora besta mark í sögu Everton að mati stuðningsmanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gylfi er strax búinn að stimpla sig inn í hug og hjörtu Everton-manna.
Gylfi er strax búinn að stimpla sig inn í hug og hjörtu Everton-manna. Vísir/Getty
Knattspyrnuáhugamenn víða um heim tala nú vart um annað en fyrsta mark Gylfa Sigurðssonar fyrir Everton sem leit dagsins ljós í kvöld. Gylfi gerði sér lítið fyrir og skoraði af 45 metra færi, rétt fyrir aftan miðju.

Markið skoraði Gylfi í viðureign Everton og Hadjuk Split í forkeppni Evrópudeildarinnar. Markið kom eftir aðeins 13 sekúndna leik í síðari hálfleik. Gylfi vann boltann af leikmanni Hadjuk Split og smellti boltanum í fallegum boga yfir markmanninn og beint í netið eins og sjá má hér.

Óhætt er að segja að markið hafi vakið mikla lukku á meðal knattspyrnuáhugamanna. Joey Barton, sem er uppalinn Everton-leikmaður þótti markið svo magnað að hann stafaði nafn Gylfa vitlaust. Hann baðst þó afsökunar á því og bar því fyrir sig að markið hefði verið svo magnað að hann væri í losti.

Kevin Kilbane, fyrrum leikmaður Everton, var á svipuðu máli og Barton og sagði að það væri erfitt að skora betra mark en þetta í sínum fyrsta leik en þetta var fyrsti leikur Gylfa í byrjunarliði Everton frá því að hann gekk til liðs við Everton fyrr í mánuðinum fyrir 45 milljónir. 

Stuðningsmenn Everton, hér heima sem erlendis voru afar kátir með markið og létu sumir þá skoðun í ljós að mark Gylfa væri viðeigandi miðað við kaupverðið, enda var Gylfi um 45 metra frá marki þegar hann lét skotið vaða.

Annar stuðningsmaður Everton segist aldrei hafa séð betra mark frá því að hann byrjaði að styðja félagið en nokkur dæmi um þau tíst sem fengu að fljúga eftir markið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Sjáðu undramark Gylfa Þórs

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt af mörkum ársins fyrir Everton í Króatíu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×