Innlent

Drápið á lambinu ekki rannsakað frekar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/Pjetur
Lögreglustjórinn á Austurlandi segir að máli ferðamanna sem ákærðir voru fyrir dráp á lambi sé endanlega lokið. Lögregla sektaði mennina og var þeim gert að greiða 120.00 krónur í sekt. Matvælastofnun kærði mennina í kjölfarið fyrir brot á velferð dýra.  

„Þar sem mál­inu var end­an­lega lokið með greiðslu sekt­ar, þegar kæra Mat­væla­stofn­un­ar barst, var því hafnað að taka málið til frek­ari rann­sókn­ar,“ seg­ir í svari Helga Jens­son­ar, lög­reglu­full­trúa á Aust­ur­landi við fyrirspurn MBL.

Helgi segir í samtali við Vísi mikilvægt að reyna að afgreiða mál á borð við þessi, sömuleiðis umferðarlagabrot og utanvegaakstur, á staðnum. Áður en menn fari úr landi.

„Annars sýnir reynslan að sektirnar fást ekki greiddar og brotin fyrnast.“

Einn gekkst við brotinu

Ferðamennirnir voru handteknir í Breiðdal á Austurlandi 2.júlí síðastliðinn. Björgvin Gunnarsson, bóndi á Núpi í Berufirði var einn þeirra sem hafði afskipti af ferðamönnunum eftir að sést hafði til þeirra elta uppi lamb og króa það af. Þegar lögregla kom á staðinn var búið að skera lambið á háls og var það lifandi þegar það var gert. 

Ferðamennirnir gáfu þá skýringu að lambið hefði verið slasað og að þeir hafi aflífað það til að lina þjáningar þess. Lögreglu barst kæra frá Matvælastofnunn þann 21.júlí, fyrir brot á lögum nr. 55/2013, um velferð dýra. Lögregla hafnaði því að rannsaka brotið frekar og segir málinu lokið. 

Helgi segir að einn aðili í hópnum hafi gengist við brotinu, eins og sé algengt í málum á borð við þessi. Sá tók ábyrgð á brotinu og greiddi sektina. Helgi vildi ekki gefa upplýsingar um þjóðerni mannanna. Helgi á ekki von á því að niðurstaðan hefði verið öðruvísi ef ákært hefði verið í málinu og dæmt á grundvelli dýraverndunarlaga. 

„Ég á von á því að sektin hefði verið svipuð, sama hvaða lögum hefði verið beitt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×