Innlent

Hjólreiðakonan ekki í lífshættu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. vísir
Hjólreiðakona á sextugsaldri sem lenti undir strætisvagni í umferðarslysi á gatnamótum Háaleitisbrautar og Miklubrautar um klukkan hálfníu í gærkvöldi er ekki talin í lífshættu.

Hún er þó töluvert slösuð, beinbrotin og marin samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Slysið varð með þeim hætti að strætó var ekið í austurátt og konan var á leið yfir Miklubraut til suðurs. Við áreksturinn lenti hún undir vagninum en hjól hennar kastaðist í burtu. Það er illa farið eftir slysið.

Að sögn lögreglu voru fjölmörg vitni að slysinu og þá eru vitni enn að gefa sig fram. Þá hefur verið tekin óformleg skýrsla af strætóbílstjóranum.

Um 20 manns voru í vagninum þegar slysið varð. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó var strætóbílstjóranum boðin áfallahjálp vegna slyssins, eins og jafnan er gert, en hann ákvað að þiggja hana ekki að svo stöddu.

Þá verður fylgst með honum í dag til að sjá hvernig honum líður og honum boðið að vera heima. Hann mun ekki koma til vinnu í dag þar sem hann þarf tíma til að jafna sig á þessu áfalli, samkvæmt upplýsingum frá Strætó.

Fréttin var uppfærð klukkan 12:33 vegna nýrra upplýsinga sem bárust frá Strætó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×