Körfubolti

Martin: Hefði viljað fá aðeins lengra frí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu eru komnir á fullt í undirbúningi sínum fyrir Evrópumótið í körfubolta en riðill Íslands fer fram í Helsinki í Finnlandi og hefst í lok ágúst.

Hörður Magnússon hitti Martin í dag en framundan eru tveir æfingalandsleikir við Belgíu hér á landi. Það verða einu leikirnir sem íslenska landsliðið spilar á Íslandi fyrir Evrópumótið.

Martin átti frábært tímabil með Étoile de Charleville-Mezieres í frönsku b-deildinni í vetur og hefur nú flutt sig um set upp í A-deildina þar sem kemur til með að spila með Champagne Chalons-Reims á næsta tímabili.

„Ég er smá stressaður yfir því að ég eigi eftir að fá eitthvað ógeð en að vera í körfubolta er samt það skemmtilegast sem maður gerir. Ég er spenntur en persónulega hefði ég viljað fá aðeins lengra frí. Ég skil samt vel að landsliðið sé byrjað að æfa,“  sagði  Martin í viðtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Martin leyfði sér aðeins að skjóta aðeins á gömlu karlana í liðinu, þá Jón Arnór Stefánsson og Hlyn Bæringsson.

„Þeirra tími er bara liðinn,“ sagði Martin hlæjandi en bætti svo við: „Við erum komnir með marga hörku spilara núna. Það eru flottir strákar bæði í skólum í Bandaríkjunum og svo eru ég, Haukur og Ægir að stíga okkar fyrstu skref í atvinnumennsku. Við þurfum ekkert að stressa okkur yfir því að þessir tveir séu að hætta,“ sagði Martin um þá staðreynd að Jón Arnór og Hlynur spilar væntanlega síðustu landsleikina sína á EM í haust.

„Það er ekkert stress framundan, bara mikil tilhlökkun. Við eigum mikið af flottum leikmönnum sem eiga eftir að skína á næstu árum. Við byrjun á því að skína á Eurobasket,“ sagði Martin.

Það má sjá alla fréttina hjá Herði með því að smella á spilarann hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×