Enski boltinn

John Obi Mikel stekkur ofan í kínverska gullpottinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Obi Mikel kveður Chelsea.
John Obi Mikel kveður Chelsea. vísir/getty
Nígeríski fótboltamaðurinn John Obi Mikel hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en hann er á leið til kínverska úrvalsdeildarliðsins Tianjin Teda.

Frá þessu greinir hann sjálfur á samfélagsmiðlum þar sem Mikel segir: „Það er kominn tími til að kveðja eftir tíu ár og 374 leiki fyrir Chelsea.“

Nígeríumaðurinn gekk í raðir Chelsea 19 ára gamall frá Lyn í Noregi og hefur unnið ellefu titla með enska liðinu. Hann hefur aftur á móti ekki spilað einn einasta leik undir stjórn Antonio Conte sem er ástæðan fyrir því að hann er að fara.

„Ég er hæstánægður með að ganga í raðir Tianjin Teda á þessum tíma þegar kínverska úrvalsdeildin er að taka á flug. Ég hlakka mikið til að hjálpa félaginu að stækka jafnt innan sem utan vallar á næstu árum,“ segir Mikel.

Með þessum félagaskiptum bætist John Obi Mikel í hóp þekktra landsliðsmanna sem elta gullið til Kína en þar í landi eru menn að borga gríðarlegar upphæðir til að landa bitum á borð við Nígeríumanninn.

Brasilíumaðurinn Oscar samdi við Shanghai SIPG á dögunum en undanfarin misseri hafa leikmenn á borð við Hulk, Ezequiel Lavezzi, Jackson Martínez, Carlos Tévez og Alex Teixeira allir samið við lið í kínversku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×