Skoðun

Gott aðgengi er ekki kók í gleri

Áslaug Ýr Hjartardóttir skrifar
Það er algengur misskilningur að gott aðgengi sé einhver forréttindi eins og kók í gleri. Eins halda margir að þetta séu geimvísindi og eiga það til að gera mistök í þeirri meiningu að bæta aðgengið. Málið er að aðgengi er mjög víðtækt hugtak, talað er um aðgengi að upplýsingum, byggingum og jafnvel mat og drykk.

Fatlað fólk er einmitt sá minnihlutahópur sem á sífellt á hættu að brotið sé á rétti þeirra, vegna skertrar getu til að verja sig án aðstoðar. Skv. fötlunarfræðinni er fötlun skilgreind sem andlegt eða líkamlegt ástand sem veldur því að fólk mætir daglegum hindrunum vegna þess að samfélagið gerir ekki ráð fyrir því.

Ein af þessum hindrunum er aðgengi, bæði áþreifanlegt og huglægt. Þess vegna hefur verið gerður sérstakur alþjóðasáttmáli til að tryggja að fatlað fólk geti notið mannréttinda til jafns við aðra með nokkrum útfærslum. Sáttmálinn ber heitið Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var fullgiltur hérlendis í fyrra, rúmum 10 árum eftir að Ísland skrifaði undir hann. Meðal þess sem fram kemur í sáttmálanum er að aðildarríki skulu tryggja fötluðu fólki aðgang að upplýsingum, byggingum, menntun o.fl. og viðurkenna rétt þeirra til að lifa sjálfstæðu lífi og stofna eigin fjölskyldu.

9. grein samningsins fjallar um aðgengi til að fatlað fólk geti lifað mannsæmandi lífi og tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Aðgengi er því hér með viðurkennt sem mannréttindi, og Ísland hefur lofað að starfa í anda samningsins þó að enn eigi eftir að lögleiða hann.

Eins og nafnið gefur til kynna er Háskóli Íslands háskóli, sem er æðsta skólastigið auk þess sem hann er elsti háskólinn hérlendis. Sem slík fræðistofnun væri lágmark að sýna fordæmi þegar kemur að almennum mannréttindum. Hér kemur saman allskonar menntafólk af hinum ýmsu sviðum, t.d. verkfræðingar, fötlunarfræðingar, læknanemar, hagfræðingar, heimspekingar o.s.frv.

Háskólinn gæti nýtt allt þetta fræðifólk til að efla og betrumbæta skólann, t.d. með því að laga aðgengið. Sem dæmi mætti nefna að það vantar leiðarlínur um skólann fyrir þá sem nota hvítan staf, sums staðar er hjólastólaaðgengið ómögulegt og annars staðar kemst hreyfihamlað fólk hreinlega ekki að. Háskóli Íslands má þó eiga það að aðgengið er ekki eins slæmt og hjá sumum ríkisstofnunum, enda má segja að það ríki sterkur vilji innan skólans til að gera enn betur til að geta komið til móts við þarfir nemenda og starfsfólks, enda leggur skólinn áherslu á jafnræði og virðingu.

Gott aðgengi til jafns við aðra eru almenn mannréttindi en alls ekki geimvísindi. Það eru til sérfræðingar í aðgengismálum. byggingareglugerðir og jafnvel lög og sáttmálar sem segja til um hvað er í raun og veru gott aðgengi. Til dæmis eru rampar sem eru meira en 20° brattir ekki sérlega aðgengilegir og geta verið beinlínis hættulegir, lyfta sem er lokuð almenningi er hindrun og einnig eru pínulitlar vörulyftur augljóslega ekki ætlaðar mannfólki.

Og hvar eru allar leiðarlínurnar, merkingarnar og glitmerkin fyrir blinda og sjónskerta? Fatlað fólk er nefnilega ekki allt hreyfihamlað, heldur getur það líka verið sjónskert eða þroskahamlað og lent í jafn miklum vandræðum út af lélegu aðgengi.

Við í jafnréttisnefnd SHÍ skorum á Háskóla Íslands að bæta aðgengi fatlaðs fólk að byggingum skólans og tryggja að það njóti sama ferðafrelsis og aðrir.

 

Greinin er hluti af greinaskriftaátaki Jafnréttisnefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í tilefni Litlu jafnréttisdaga jafnréttisnefndar SHÍ sem standa yfir dagana 27. febrúar. - 3. mars. Dagskrá má finnahér.


Tengdar fréttir

Við þurfum öll að pissa

Kannski ættum við að hætta þessari þrálátu kynjaskiptingu og skipta frekar upp í klósett þar sem fólk fær að pissa í friði og klósett þar sem fólk getur áreitt hvort annað?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×