Erlent

Lík kvik­mynda­gerðar­manns fannst eftir þriggja daga leit

Birgir Olgeirsson skrifar
Rob Stewart var þekktastur fyrir heimildarmyndina Sharkwater sem kom út árið 2006.
Rob Stewart var þekktastur fyrir heimildarmyndina Sharkwater sem kom út árið 2006. Vísir/Facebook
Lík kanadísks kvikmyndagerðarmanns, sem hvarf undan strönd Flórída, fannst í gær. Skömmu eftir að hafa tilkynnt var að gert yrði hlé á leit að kvikmyndagerðarmanninum birti bandaríska landhelgisgæslan stöðuuppfærslu á Twitter þess efnis að lík hans hefði fundist á 67 metra dýpi.

Um er að ræða hinn 37 ára gamla Rob Stewart sem var þekktastur fyrir heimildarmyndina Sharkwater sem kom út árið 2006.

Leit að honum hafði staðið yfir frá því á þriðjudagskvöld en þá hafði hann ekki skilað sér úr köfunarleiðangri.

Um klukkan þrjú í gær tilkynnti bandaríska landhelgisgæslan að leit yrði hætt um sólsetur. Fjórum klukkutímum síðar barst tilkynning um að lík hans væri fundið.

Fjölskyldan hans sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kom að hún væri slegin yfir þessum fréttum en huggun væri að finna í því að hann dó við þá iðju sem hann elskaði.

Stewart hafði verið við köfun ásamt vinum sínum um 9 kílómetrum undan strönd Islamorada á Flórída-skaga. Hann er sagður hafa komið örstutt upp úr kafi áður en hann hvarf.

Sharkwater fjallaði um mikilvægi hákarla á vistkerfi og ágang mannsins á stofn hákarla. Hann var staddur í Flórída við tökur á framhaldi myndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×