Enski boltinn

Ranieri: Myndi skipta bikarnum út fyrir stig í deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri fráfarandi Englandsmeistara Leicester, viðurkennir að hann myndi skipta út árangri liðsins í enska bikarnum fyrir stig í úrvalsdeildinni. Hann var þó ánægður með sigur liðsins í gær.

Leicester lagði Derby, 3-1, eftir framlengingu í endurteknum leik liðanna í 32 liða úrslitum bikarsins í gærkvöldi þar sem Andry King, Wilfred Ndidi og Demarai Gray skoruðu mörk Refanna.

Lærisveinar Ranieri eiga nú fyrir höndum gríðarlega mikilvægan leik í deildinni á sunnudaginn þar sem þeir heimsækja sjóðheitan Gylfa Þór Sigurðsson og félaga hans í Swansea á Liberty-völlinn.

Englandsmeistararnir hafa boðið upp á verstu titilvörn í sögu deildarinnar í allan vetur en liðið er með 21 stig, jafnmörg stig og Swansea. Þau eru bæði einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.

„Ég hef margoft sagt að ég myndi vilja fá stig í staðinn fyrir þennan árangur í bikarnum en það er ekki hægt,“ sagði Ranieri eftir sigurinn í gær en hann fékk stuðningsyfirlýsingu frá yfirmönnum félagsins fyrr í vikunni.

„Swansea-leikurinn verður sá stærsti hjá okkur á tímabilinu. Við verðum að ná úrslitum þar. Þar var samt mikilvægt fyrir sjálfstraust strákanna að komast áfram í bikarnum. Vonandi kemur þetta okkur í gang,“ sagði Claudio Ranieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×