Fótbolti

Týndur 34 árum eftir að hann lést

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Líkamsleifar brasilíska fótboltasnillingsins Garrincha eru horfnar úr kirkjugarði í Magé í Ríó.

Garrincha, sem varð tvívegis heimsmeistari með Brasilíu, lést árið 1983. Nú, 34 árum seinna, hefur fjölskylda hans ekki hugmynd um hvar líkamsleifar hans eru niðurkomnar.

Svo virðist sem líkamsleifar Garrincha hafi týnst þegar þær voru grafnar upp og færðar fyrir nokkrum árum.

Þetta komst upp þegar borgarstjórinn í Magé fór að grennslast fyrir um hvar Garrincha væri nákvæmlega grafinn. Starfsmenn kirkjugarðsins í Magé viðurkenndu þá að þeir vissu hreinlega ekki hvar líkamsleifar Garrincha voru.

Fjölskylda Garrincha er eðlilega mjög ósátt við þetta og dóttir hans, Rosangela Santos, segir að faðir hennar eigi þetta ekki skilið.

Borgarstjórinn í Magé hefur heitið því að finna líkamsleifar Garrincha, jafnvel þótt það þurfi að grafa upp öll hin líkin í kirkjugarðinum.

Garrincha er talinn vera einn besti fótboltamaður allra tíma. Hann skoraði 12 mörk í 50 landsleikjum fyrir Brasilíu og var valinn besti leikmaður HM 1962 þar sem Brasilíumenn urðu heimsmeistarar.

Garrincha átti í vandræðum í einkalífinu og baráttan við Bakkus tók sinn toll. Hann var aðeins 49 ára þegar hann lést í janúar 1983.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×