Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Jafnréttismálaráðherra tekjuhæstur á Alþingi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra er langtekjuhæstur meðal alþingsmanna, ráðherra og forseta Íslands.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra er langtekjuhæstur meðal alþingsmanna, ráðherra og forseta Íslands. Vísir
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra er langtekjuhæstur af alþingismönnum, ráðherrum og forseta Íslands. Hann er með 3.257.000 krónur í laun á mánuði miðað við könnun blaðsins.

Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunnar sem kom út í morgun. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.

Í öðru sæti er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins með 2,4 milljónir króna á mánuði og í því þriðja er Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar með 1,8 milljónir krónur á mánuði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, er í því fjórða með 1,78 milljónir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, er fimmta með 1,76 milljónir á mánuði.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Sigurður Ingi Jóhansson og Gunnar Bragi Sveinsson eru í sjötta, sjöunda og níunda sæti listans. Lilja með 1,6 milljónir á mánuði, Sigurður Ingi, sem er formaður Framsóknarflokksins, með 1,58 milljónir og Gunnar Bragi með 1,4 milljónir.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands er í áttunda sæti með 1,56 milljónir króna á mánuði og þá er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í því tíunda með 1,37 milljónir.

Vert er að taka fram að könnun Frjálsar verslunar byggir á útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur. Þá þurfa tölurnar ekki að endurspegla föst laun í fyrra þar sem allar tekjur ákvarða útsvar. Þær gætu verið fyrir setu í nefndum, önnur aukastörf og vegna kaupréttarsamninga. Jafnvel hafa margir tekið út séreignarsparnað.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×