Innlent

Maður á tvítugsaldri sendur með sjúkraflugi eftir alvarlegt bílslys

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Slysið varð á svokallaðri Háreksstaðaleið á þjóðvegi 1 við afleggjarann að Vopnafirði.
Slysið varð á svokallaðri Háreksstaðaleið á þjóðvegi 1 við afleggjarann að Vopnafirði. Google Maps
Íslenskur maður á tvítugsaldri var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir alvarlegt bílslys á Austurlandi í dag. Slysið varð á svokallaðri Háreksstaðaleið á þjóðvegi 1 við afleggjarann að Vopnafirði. Bíllinn lenti utan vegar með þeim afleiðingum að hann valt og maðurinn kastaðist út úr bílnum.

Lögreglunni á Egilsstöðum barst útkall vegna slyssins um klukkan hálf fimm í dag. Var maðurinn fluttur með sjúkrabíl á flugvöllinn á Vopnafirði og þaðan var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Samkvæmt lögreglu var hann meðvitundarlaus allt þar til hann fór með sjúkraflugi en ekki er vitað hve alvarleg meiðsl hans eru.

Var maðurinn einn og ferð og svo virðist sem hann hafi ekki verið í öryggisbelti. Tildrög slyssins eru nú til rannsóknar hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×