Erlent

Þýska leyniþjónustan sögð hafa njósnað um fjölmiðla

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þýska leyniþjónustan Bundesnachrichtendienst er sögð hafa njósnað um fjölda fréttamanna.
Þýska leyniþjónustan Bundesnachrichtendienst er sögð hafa njósnað um fjölda fréttamanna. vísir/epa
Þýska leyniþjónustan, BND, er sögð hafa njósnað um fjölda fjölmiðla síðastliðna tvo áratugi. Leyniþjónustan er sökuð um að hafa vaktað að minnsta kosti fimmtíu símanúmer blaðamanna og ritstjórna víða um heim, auk þess sem hún hafi komist yfir tölvupósta og símskeyti.

Frá þessu greinir þýska blaðið Der Spiegel en það hyggst birta frekari upplýsingar um málið síðar í dag. Rannsókn hefur staðið yfir á njósnaaðgerðum leyniþjónustunnar og segist Spiegel hafa gögn rannsóknarnefndar þingsins undir höndum.

Blaðamenn á vegum BBC, Reuters og New York Times eru á meðal þeirra sem leyniþjónustan fylgdist með. Breska ríkisútvarpið hefur óskað eftir svörum frá BND vegna þessara ásakana, en ekki haft erindi sem erfiði. Njósnirnar eiga að hafa staðið yfir frá árinu 1999.

Rannsókn á starfsemi þýsku leyniþjónustunnar hófst fyrir um þremur árum, meðal annars vegna upplýsinga frá uppljóstraranum Edward Snowden, sem hélt því fram að BND tæki þátt í njósnum bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×