Liverpool byrjaði undirbúningstímabilið með 0-4 sigri á Tranmere í kvöld.
Eins og tölurnar gefa til kynna átti Rauði herinn ekki í miklum vandræðum gegn Tranmere sem leikur í fimmtu efstu deild á Englandi.
James Milner kom Liverpool yfir með marki úr vítaspyrnu á 34. mínútu og átta mínútum síðar bætti Marko Grujic öðru marki við.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gerði alls 10 breytingar á liði sínu í hálfleik. Meðal þeirra sem kom inn á var Dominic Solanke sem var keyptur frá Chelsea í sumar.
Pedro Chirivella, tvítugur Spánverji, kom Liverpool í 0-3 á 50. mínútu og tólf mínútum fyrir leikslok skoraði velska ungstirnið Ben Woodburn svo fjórða og síðasta mark Liverpool úr vítaspyrnu. Lokatölur 0-4, Liverpool í vil.
Næsti leikur Liverpool er gegn Wigan Athletic á föstudaginn.
Strákarnir hans Klopps byrjuðu undirbúningstímabilið með stórsigri
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
