Rosenborg gerði 1-1 jafntefli við Dundalk á útivelli í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn á miðjunni hjá Rosenborg sem lenti undir á 18. mínútu. David McMillan kom boltanum þá framhjá André Hansen, fyrrverandi markverði KR.
Einni mínútu fyrir hálfleik jafnaði Tore Reginiussen metin í 1-1 og þar við sat. Rosenborg náði því í dýrmætt útivallarmark og dugar markalaust jafntefli í seinni leiknum á Lerkendal eftir viku til að komast í næstu umferð.
Dundalk komst í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Á leiðinni þangað slógu þeir m.a. Íslandsmeistara FH úr leik.
Rosenborg féll hins vegar úr leik fyrir APOEL í 3. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar í fyrra.
