Þorvaldur Árnason og þrír astoðarmenn hans eru komnir til Svíþjóðar þar sem þeir sjá um dómgæsluna í leik í Meistaradeildinni á morgun.
Þorvaldur Árnason dæmir þá leik sænska liðsins Malmö og FK Vardar frá Makedóníu en þetta er fyrri viðureign liðanna í 2. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.
Leikurinn fer fram á Swedbank Stadion í Malmö sem tekur 21 þúsund manns í sæti.
Þorvaldi til aðstoðar verða þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Gylfi Már Sigurðsson. Gunnar Jarl Jónsson verður síðan fjórði dómari.
Þorvaldur dæmdi síðast í forkeppni Meistaradeildarinnar í júní 2015 en hann dæmdi hinsvegar tvo leiki í forkeppni Evrópudeildarinnar í fyrra.
Þetta verður fjórði leikurinn sem Þorvaldur dæmir í forkeppni Meistaradeildarinnar á ferlinum og áttundi leikurinn sem hann er með flautuna í Meistaradeild eða Evrópudeild síðan að hann varð FIFA-dómari.
