Menning

Byrjaði þrisvar og hætti tvisvar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þórður er níutíu og sex ára og sendir frá sér hvert bókarhandritið eftir annað.
Þórður er níutíu og sex ára og sendir frá sér hvert bókarhandritið eftir annað.
Halló, halló,“ er sagt fjörlegri röddu hinum megin á línunni, þegar ég hringi í Þórð Tómasson í Skógum, safnvörð, organista og rithöfund. Ég bið um eitt viðtalsbil vegna nýjustu bókar hans: Þjóðfræði mannslíkamans. Það er fúslega veitt.

„Það var einhver ósjálfráð hvöt sem hvatti mig til að skrifa um þetta efni. Eins og ég segi í formála þá byrjaði ég þrisvar og hætti tvisvar en í þriðja skipti varð ekki aftur snúið.“

Varstu búinn að safna þessum fróðleik lengi í sarpinn? „Nei, raunverulega ekki. Efnið er að mestu tekið úr minni mínu og bókin ber það með sér.“

Hvenær hófstu handa? „Árið 2015, orðinn 94 ára.“ Kallar inn í húsið: „Gunna, viltu fara til dyra.“

Ertu með tölvu? „Nei, í mörg ár notaði ég ritvél en seinni árin bara pennann. Þannig sit ég enn að skrifa.“

Hvaða viðfangsefni ertu með núna? „Ég er að ganga frá handriti um heyannir á Íslandi.“

Var Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri ekki búinn að tæma það efni? „Nei, engan veginn. Hann kom með stórt og mikið rit árið 2015 um íslenska sláttuhætti en ég fer miklu víðar. Ég fer um allt sviðið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×