Innlent

„Því miður er þetta ekki í fyrsta skiptið sem við erum í þessari stöðu"

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Yfirstjórn Landspítalans leitar allra leiða til þess að bæta það ástand sem verið hefur á spítalanum undanfarin misseri, en um helgina var lýst yfir hættuástandi vegna álags. Heilbrigðisráðherra fundaði með forstjóra Landspítalans í dag.

Ástandið innan Landspítalans hefur verið ofarlega í umræðunni frá því fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 varð að lögum en í því fékk spítalinn ekki það fjármagn sem hann hafði óskað eftir og í raun minna fjármagn en stjórnendur spítalans sögðu hann þurfa til þess að viðhalda óbreyttri stöðu.

Síðustu daga hefur starfsfólk lýst áhyggjum sínum um ástandið innan Landspítalans bæði hvað varðar aðbúnað og álags á starfsfólki og svo sjúklinga sem sumir hverjir hafa þurft að að liggja á göngum og kaffistofum spítalans.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 um helgina sagði Tómas Guðbjartsson, læknir á spítalanum, að ástandið væri orðið grafalvarlegt og kallaði eftir viðbrögðum frá eftirlitsaðilum.

Landlæknir sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að embættið hafi ekki fengið neinar tilkynningar um alvarleg atvik sem benda til þess að ástandið sé verra nú en það hefur verið áður. En að nóg væri að sjá það sem væri að gerast núna til að verða áhyggjufullur.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirlitinu berast reglulega kvartanir og kröfur um úrbætur til eftirlitsins og eru stofnanirnar í nær stöðugum samskiptum vegna ýmissa mála allt árið um kring. Þá fer Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins reglulega í eldvarnareftirlit á spítalanum og eru menn þar meðvitaðir um gangnalegu sjúklinga þó hún sé ekki sé ekki samþykkt.

„Held að ástandið sé, eins og hefur komið fram, það er erfitt. Ég átti fund með forstjóra spítalans í morgun og við erum að fara yfir stöðuna,“ Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.

Óttarr segir yfirstjórn spítalans vinna að því að reyna ráða úr vandanum, meðal annars hvernig hægt verði að útskrifa fólk fyrr af spítalanum í önnur meðferðarúrræði.

„Síðan er þetta auðvitað hluti af stóru, meira langtímamáli og það er uppbygging spítalans. Það er áhersluatriði hjá mér og hjá ríkisstjórninni að hraða uppbyggingu nýja Landspítalans,“ segir hann.

Seinna á þessu ári verður tekin í notkun nýtt sjúkrahótel og segir Óttarr það hluta þess að leysa þá stöðu sem Landspítalinn er í.

„Sömuleiðis þarf að blása í og gera betur þegar kemur að plássum fyrir þá sem þurfa á hjúkrunarheimilisplássum að halda.“

Óttarr segir að nýr meðferðarkjarni við Landspítalann við Hringbraut verði klár árið 2023.

„Ég held það sé ástæðan fyrir því að ég barðist fyrir því að fá að spreyta mig á heilbrigðismálunum. Sömuleiðis að ríkisstjórnin skuli setja heilbrigðismálin í efsta forgang. Það er einmitt vegna þess að ég held það séu allir sammála um að þessi staða er ekki góð eins og kom á fundi mín og forstjórans í morgun að það eru fullt af aðgerðum í gangi til þessa að reyna að vinna á þessu. Því miður er þetta ekki í fyrsta skiptið sem við erum í þessari stöðu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×