Erlent

Færeyingar kjósa um nýja stjórnarskrá á næsta ári

atli ísleifsson skrifar
Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. Vísir/gva
Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, hefur greint frá því að þjóðaratkvæðagreiðsla um færeyska stjórnarskrá muni fara fram þann 25. apríl 2018.

Í yfirlýsingu frá færeysku landsstjórninni segir að hún muni vinna að því að tryggja stjórnarskránni sem viðrækastan stuðning, bæði á þingi og meðal færeysku þjóðarinnar. Stjórn og stjórnarandstaða hafi á síðustu mánuðum reynt að ná saman um texta sem byggir á tillögu sem hefur verið í þróun síðustu ár.

Johannesen segir að verkefnið hafi verið að vinna að því að ná saman um texta sem sem flestir geti fylkt sér á bakvið. „Það er ekkert launungamál að stjórnmálaflokkarnir eru með ólíkar skoðanir á ákveðnum þáttum stjórnarskrárdraganna. Það hefur haft áhrif á ferlið til þessa,“ segir lögmaðurinn.

Landsstjórnin hafði upphaflega ætlar sér að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrir árslok 2017. Drög að texta verða lögð fyrir þingið þegar það kemur saman þann 29. júlí næstkomandi. Endanleg drög verða svo að liggja fyrir sex mánuðum áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram.

„Færeyska stjórnarskráin mun skilgreina einkenni okkar sem þjóðar og grundvallarréttindi okkar og skyldur, þar á meðal rétt okkar til sjálfsákvörðunar. Þetta verður jafnframt vörn okkar gegn misnotkun valds. Þetta kemur skýrt fram í þeirri kröfu að færeyska þjóðin verður að verða spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslum, um spursmál er varða frekara sjálfstæði frá eða nánari samruna við Danmörk. Hið sama á við um mögulega aðild að yfirþjóðlegum stofnunum, svo sem Evrópusambandinu. Færeyska stjórnarskráin mun flytja endanlegt ákvörðunarvald frá þinginu og til þjóðarinnar þegar kemur að grundvallarmálum. Þetta verður mikill sigur fyrir færeysku þjóðina og lýðræðið í Færeyjum,“ segir Johannesen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×