Erlent

Völd Tyrklandsforseta stóraukast nái stjórnarskrárbreytingar fram að ganga

Anton Egilsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Vísir/AFP
Tyrkir munu ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu þann 16. apríl næstkomandi og kjósa um breytingar á stjórnarskrá landsins. Meðal annars verður kosið um tillögur sem kæmu til með að stórauka völd forseta landsins til muna. Reuters greinir frá þessu.

Fram hafa verið lagðar tillögur til breytinga þess efnis að það færist í verkahring forseta landsins að skipa ráðherra og embættismenn í æðstu stöður innan ríkisins. Þá myndi staða forsætisráðherra vera lögð niður ef tillögurnar ná fram að ganga.

Þá er það einnig lagt fram í tillögum að heimila forseta að setja á neyðarlög í landinu og að hann hafi vald til að leysa upp þing.

Núverandi forseti Tyrklands er Recep Tayyip Erdogan en hann tók við embætti árið 2014. Þar áður hafði hann gegnt embætti forsætisráðherra í rúm ellefu ár. 

Hafa andstæðingar tillagnanna lýst yfir miklum áhyggjum en þeir óttast að með þessum breytingum myndi landi færast meira í átt að því að verða einræðisríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×