Menning

Nú verða fluttar veðurfregnir

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Anna María við verk sitt sem er til sýnis í Gallerí Gátt en það er opið miðvikudaga til sunnudaga frá klukkan 15 til 18.
Anna María við verk sitt sem er til sýnis í Gallerí Gátt en það er opið miðvikudaga til sunnudaga frá klukkan 15 til 18. Vísir/Anton Brink
Vefstóllinn er mitt verkfæri og með honum miðla ég því sem ég vil, þó hann geti verið takmarkandi. Ég einskorða líka efnið sem ég vinn úr við tuskuræmur. Tilgangurinn er tvíþættur, að göfga ruslið með því að vefa úr fötum sem fólk er hætt að nota og tjá það sem mig langar að segja frá. Núna er það veðrið.“ Þetta segir Anna María Lind Geirsdóttir um verk sitt Veðurfregnir sem hún sýnir í galleríinu Gátt í Hamraborg 3 A í Kópavogi til 15. október. Hún kveðst hafa fengið góð viðbrögð frá gestum sem komið hafa á sýninguna. „Þeir túlka verkið sem veðurbrigði og þannig var það hugsað.“

En af hverju veðurfregnir? „Ég er mikið úti bæði vegna starfs míns sem leiðsögumaður og ferða minna innanbæjar á hjóli. Mér finnst það forréttindi því veðrið er svo síbreytilegt að alltaf mætir manni ný fegurð. Svo er ég heilluð af veðurfregnum. Lesararnir eru svo yfirvegaðir hvort sem þeir eru að spá aftakaverðri eða bongóblíðu og þannig hefur það alltaf verið. Pabbi minn var flugmaður og það var sussað á mig þegar ég var lítil, nú þurfti að hlusta á veðrið af athygli og ég lærði að taka eftir.“

Hvernig kynntist þú vefnaði? Mamma er finnsk og það voru alltaf tuskumottur á heimilinu. Ég snerti vefstól í fyrsta sinn þegar ég var átta ára og ákvað þá strax að þetta væri eitthvað fyrir mig. Ég lærði vefnað í Finnlandi. Það er fiskibeinsmynstur í þessu verki. Ég var dálítið búin að hugsa hvaða vend ég ætti að nota og finnst þessi passa best við mónótóninn í veðurfregnunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.