Innlent

Þrettán kíló af fitu fokin af þrekvöxnum líkama Smes

Jakob Bjarnar skrifar
Sme gekk til Akureyrar og reynir að synda einhentur, eða því sem næst, og kemst 350 metra bringusund fimm daga vikunnar.
Sme gekk til Akureyrar og reynir að synda einhentur, eða því sem næst, og kemst 350 metra bringusund fimm daga vikunnar.
Sigurjón Magnús Egilsson, fréttahaukur, birti af sér mynd á Facebooksíðu sinni sem vinir hans þar hafa tekið með nokkrum fögnuði. Enda fyllsta ástæða til. Sigurjón, sem jafnan er kallaður Sme með vísan til upphafsstafa nafna hans, en á DV-árum sínum merkti hann fréttir sínar sem –sme, greinir frá því að þrettán kíló af fitu séu fokin frá mánaðarmótunum janúar/febrúar.

„Kom fótgangandi til Akureyrar í morgun. (Eða jafngildi þess). Frá áramótum til dagsins í dag, með tveggja vikna hvíld um mánaðamót jan/feb, er ég búinn að ganga 392 kílómetra, en til Akureyrar eru 388 kíómetrar. Á leiðinni hef ég misst 13 kíló af fitu og er bara allt annar,“ segir Sme og ljóst má vera að oft hefur hann þurft að bíta á jaxlinn meðan á því ferðalagi stóð:

„Í vinstri hendi er ég með spelku sem ég verð að nota þar sem ekkert brjósk er í hægra hnénu og spelkan virkar sem loftdempari. Í hægri hendi er ég með sérsniðinn fatla, þar sem hægri handleggurinn er máttlítill, þungur að bera og hreint ómögulegur eftir slys sem ég lenti í.“

Sme segir að án spelkunnar og fatlans væri hann fjarri lagi kominn til Akureyrar.

„Eins er gaman að geta þess að ég bý þannig að svo til allar gönguferðirnar eru farnar án þess að hreyfa bíl. Mest hef ég gengið á Vatnsendaheiði. Að auki reyni ég að synda einhentur, eða því sem næst, og kemst 350 metra bringusund fimm daga vikunnar,“ segir Sme og þakkar lesturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×