Lífið

Koma með grín frekar en ólukku

Stefán Þór Hjartarson skrifar
York er sérlega hrifinn af kinnbeinum rapparans Bents.
York er sérlega hrifinn af kinnbeinum rapparans Bents. Vísir/Andri Marínó
Þetta eru tveir kana­dískir grínistar, Steve Patterson og Erica Sigurdson, sem eru að koma til Íslands og við ætlum að skella í uppistandssýningu á Hard Rock Café í kvöld,“ segir kanadíski grínistinn York Underwood sem heldur The Canadian Comedy Invasion, eða kanadísku grín-innrásina, í kvöld á Hard Rock Café. York hefur verið búsettur hér á landi í nokkurn tíma og grínast hér og þar – fór meðal annars á kostum í Loga í beinni eins og margir muna kannski eftir.

Hvaða fólk er þetta sem ætlar að ráðast inn í landið með gríni?

„Steve Patterson er stórt nafn í kanadísku grínsenunni og er umsjónarmaður þáttarins The Debaters á CBC Radio – það er svona kanadíska útgáfan af RÚV. Erica Sigurdson er, eins og nafnið bendir til, íslensk! Eða hún er komin af Íslendingum og á sínar rætur hér á landi. Hún vann líka titilinn besti kvenuppistandarinn á kanadísku grínverðlaununum. Það er í raun bara heppileg tilviljun að þau eru að koma, eða kannski ekki alveg tilviljun – ég er búsettur á Íslandi og þau langaði að sýna hér þannig að þau höfðu samband við mig, umboðsskrifstofan mín hafði samband við Hard Rock og þetta small allt saman svo að nú erum við að fara að setja upp sýningu!“

York segir að Steve sé gríðarlega þekktur í heimalandinu, sérstaklega meðal fólks sem hlustar á útvarp, segir að hann sé eins konar Sóli Hólm þeirra Kanadamanna þegar blaðamaður innir hann eftir íslenskum samanburði. Erica er þekktari í „stand-up“ heiminum, en þar er hún eitt þekktasta nafn Kanada. Bæði voru þau spennt fyrir því að koma hingað og verður þetta í fyrsta sinn sem þau koma til landsins.

„Þetta er stórgott tækifæri fyrir Íslendinga að kynnast kanadísku gríni. Stærsti hópur Íslendinga utan Íslands er búsettur í Kanada – það eru alveg 95 þúsund afkomendur Íslendinga í Kanada. Íslendingar komu til Kanada snemma á tuttugustu öldinni og nú er röðin komin að Kanadamönnum að koma yfir, og við komum með grín meðferðis frekar en ólukku,“ segir York kíminn.

„Erica hlýtur að segja nokkra brandara um Íslendinginn í sér og hún talar smá íslensku. Hún kemur með mynd með sér af húsi sem langamma hennar átti hér á landi og ætlar sér að reyna að finna það,“ segir York, en við skulum vona að húsið sé á höfuðborgarsvæðinu, annars gæti leitin orðið löng fyrir frænku okkar hana Ericu.

Uppistandið fer fram í kvöld klukkan hálf níu í kjallara Hard Rock Café þar sem er búið að setja upp nokkuð góðan grínklúbb.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×