Innlent

Tveggja mánaða fangelsi fyrir að kýla sambýliskonu sína og skalla hana ítrekað

Þórdís Valsdóttir skrifar
Maðurinn veittist tvisvar sinnum að fyrrverandi sambýliskonu sinni.
Maðurinn veittist tvisvar sinnum að fyrrverandi sambýliskonu sinni. Vísir/getty
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi síðastliðinn fimmtudag mann í tveggja mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir gegn fyrrverandi sambýliskonu hans.

Manninum var gefið að sök að hafa veist tvívegis að konunni á heimili mannsins. Hann játaði sök fyrir dómi og taldi dómurinn því nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þau brot sem hann var borinn sökum.

Í fyrri árásinni sló hann konuna hnefahöggi og skallaði hana í andlit. Því næst ýtti hann konunni upp að vegg með því að leggja framhandlegg sinn upp að hálsi hennar og haldið henni þannig fastri. Eftir að hún náði að losa sig réðst maðurinn að henni á ný og hélt henni á gólfinu.

Í síðari árásinni réðst hann að konunni með hnefahöggum og skallaði hana ítrekað í andlit. Hann hrinti henni í gólfið svo enni hennar skall í gólfið.

Konan hlaut bólgur og mar um allt andlit í kjölfar árásanna.

Maðurinn var dæmdur til að greiða konunni 300 þúsund krónur í skaðabætur.

Langur sakaferill

Maðurinn á langan sakaferil að baki sem teygir sig aftur til ársins 1999. Hann hefur margsinnis verið dæmdur til refsingar fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Þar að auki hefur hann verið dæmdur í fangelsi fyrir þjófnað, brot gegn valdstjórninni og fyrir að raksa umferðaröryggi og stofna lífi og heilsu vegfaranda í háska með akstri sínum.

Hann hefur einnig ítrekað sætt sektum fyrir umferðarlagabrot og hefur verið sviptur ökurétti ævilangt.

Dómurinn leit til þess að maðurinn hafi nú í annað sinn ítrekað brot sem tengt er við vísvitandi ofbeldi og leiddi það því til þess að maðurinn hlaut þyngri refsingu en ella.

Hins vegar féllst dómurinn á það með manninum að lækka beri refsingu hans vegna þess að árásirnar hafi verið unnar í áflogum.  

Dóm héraðsdóms í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×