Erlent

Handtekin fyrir tíst um Mugabe

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
O'Donovan sést hér fyrir miðju skömmu áður en hún var leidd fyrir dóm og úrskurðuð í gæsluvarðhald.
O'Donovan sést hér fyrir miðju skömmu áður en hún var leidd fyrir dóm og úrskurðuð í gæsluvarðhald. vísir/epa
Bandarísk blaðakona, sem starfar í Simbabve, hefur verið handtekin fyrir að móðga Robert Mugabe, forseta landsins. Konan sendi frá sér tíst sem yfirvöldum þótti niðrandi.

„Við erum leidd áfram af sjálfelskum og sjúkum manni,“ tísti Martha O‘Donovan. Með tístinu fylgdi mynd sem gaf til kynna að lífinu væri haldið í Mugabe með hjálp tækja. Brot O‘Donovan, að tala illa um þjóðarleiðtogann, getur varðað allt að 20 ára fangelsisvist.

Mugabe, sem er 93 ára, hefur stýrt Simbabve frá árinu 1980, fyrst sem forsætisráðherra en síðar sem forseti. Með hækkandi aldri hefur dregið úr því að hann komi fram opinberlega og eru margir sem telja að heilsa hans leyfi varla að hann stýri landinu áfram.

Handtaka O‘Donovan er sú fyrsta eftir að sérstöku netmálaráðuneyti var komið á fót í landinu í síðasta mánuði. Tilgangur þess er að hafa auga með samfélagsmiðlum og heimasíðum til að sjá hvort eitthvað ólöglegt eigi sér stað þar. Mikið hefur verið rætt og ritað um Mugabe, og stjórn hans, á samfélagsmiðlum í landinu og aldrei meir en í fyrra. Var ráðuneytinu komið á fót vegna þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×