Innlent

Ungir karlmenn ofbeldisfullir í miðbænum um helgar

Benedikt Bóas skrifar
Mörg brot áttu sér stað frá miðnætti til klukkan 7.
Mörg brot áttu sér stað frá miðnætti til klukkan 7. vísir/daníel
Árið 2016 var tilkynnt um 283 líkamsárásir í miðborg Reykjavíkur. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki borist jafn fáar tilkynningar á einu ári frá því árið 2011 þegar tilkynnt var um 261 brot.

Flest þessara ofbeldisbrota koma upp í tengslum við skemmtanalífið í miðborginni um helgar. Um það bil tvö af hverjum þremur tilkynntum ofbeldisbrotum árið 2016 áttu sér stað frá miðnætti til klukkan 7 aðfaranótt laugardags og sunnudags og voru tæp 80 prósent þessara brota skráð inni á skemmtistöðum eða utandyra á þessu svæði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þar segir enn fremur að karlmenn séu um 90 prósent gerenda í ofbeldismálum í miðborginni og um 80 prósent brotaþola. Tæplega helmingur grunaðra var á aldrinum 21 til 30 ára og um helmingur brotaþola var á sama aldri. Ekki er algengt að sömu aðilar séu grunaðir í mörgum ofbeldismálum á sama árinu.

Um níu prósent grunaðra báru ábyrgð á tveimur eða fleiri ofbeldis­brotum árið 2016 en tæplega þrjú prósent báru ábyrgð á þremur eða fjórum málum.

Þegar á heildina er litið hefur ofbeldisbrotum á höfuðborgarsvæðinu öllu fjölgað frá árinu 2011. Það ár bárust lögreglunni 679 tilkynningar en í fyrra voru tilkynningarnar 1.169. Þessi fjölgun skýrist af breyttu verklagi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í heimilis­ofbeldismálum sem tók gildi í janúar 2015.

Unnið er að uppsetningu á um 30 nýjum eftirlitsmyndavélum í miðborginni. Verður lögreglan með aukið eftirlit um helgar til að auka öryggi í borginni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×