Innlent

Bjarni segist ekki missa svefn yfir skoðanakönnunum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Forsætisráðherra hefur litlar áhyggjur af nýjustu skoðanakönnunum.
Forsætisráðherra hefur litlar áhyggjur af nýjustu skoðanakönnunum. vísir/vilhelm
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist „ekki missa svefn“ yfir nýjustu skoðanakönnunum sem sýna minnkandi stuðning við ríkisstjórnina. Um þrjár kannanir séu gerðar í hverjum mánuði og þær breytist stöðugt.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði á þingi í dag að lægra fylgi skýrist væntanlega af skýrslunum tveimur sem Bjarni lét vinna en gerði ekki opinberar fyrr en að kosningum loknum,  en stjórnarandstaðan hefur sakað hann um að hafa leynt þeim til að hafa áhrif á úrslit kosninga.

Logi vísaði í skoðanakönnun MMR frá því í gær þar sem ríkisstjórnin mælist með 34,9 prósenta fylgi. „Ef miðað er við könnun MMR frá því í gær hafa stjórnarflokkarnir misst um 30 prósent fylgi og stjórnin nýtur aðeins stuðnings þriðjungs kjósenda 40 dögum eftir að hún tók við. Í síðustu Gallup-könnun er veruleikinn svo enn svartari. Aðeins fjórðungur landsmanna styður ríkisstjórnina, mest tekjuháir karlmenn,“ sagði Logi í óundirbúnum fyrirspurnartíma, áður en hann spurði Bjarna hvort hann hefði áhyggjur af þessari þróun.

Bjarni sagðist litlar áhyggjur hafa, enda séu um þrjár kannanir í mánuði. „Fyrir rétt tæpu ári voru Píratar með 40 prósent, nú er annar flokkur að mælast stærstur í sumum könnunum og enn aðrir flokkar í öðrum. Ég veit ekki hvort það gagnast þjóðfélagsumræðunni mikið að vera að velta fyrir sér skoðanakönnunum,“ sagði Bjarni.

„Hæstvirtur þingmaður getur verið alveg rólegur yfir því að ég missi ekki svefn yfir því hvernig skoðanakannanir standa. Annað af þeim fyrirtækjum sem vísað er til mældi fylgi við minn flokk undir 22 prósentum þremur dögum fyrir kosningar en við enduðum í 29 prósent,“ sagði hann einnig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×